Innlent

Aflýsa Sæludögum í Vatnaskógi

Eiður Þór Árnason skrifar
Páll Óskar hélt meðal annars uppi stuðinu við margmenni á Sæludögum árið 2019.
Páll Óskar hélt meðal annars uppi stuðinu við margmenni á Sæludögum árið 2019. Aðsend

Ákveðið hefur verið að aflýsa fjölskylduhátíðinni Sæludögum í Vatnaskógi sem halda átti um verslunarmannahelgina í ljósi nýrra samkomutakmarkana. 

Er þetta annað árið í röð sem Skógarmenn KFUM, sem reka sumarbúðirnar í Vatnaskógi, taka ákvörðun um að aflýsa Sæludögum sem höfðu fyrir það verið haldnir á hverju ári frá 1992.

„Í ljósi nýjustu samkomutakmarka stjórnvalda er það mat stjórnar Skógarmanna KFUM að ekki sé lengur forsvaranlegt að halda fyrirhugaða fjölskylduhátíð,“ segir í tilkynningu frá skipuleggjendum.

„Við erum þakklát þeim fjölmörgu aðilum sem hafa undanfarna daga staðið í ströngu við undirbúning hátíðarinnar sem og þeim sem höfðu tryggt sér þá aðgöngumiða á hátíðina.“

Munu Skógarmenn endurgreiða aðgöngu- og gistikostnað sem þátttakendur hafa greitt vegna hátíðarinnar.

Tóku ákvörðunina í dag eftir að nýjar takmarkanir voru tilkynntar

„Þetta er skellur og við erum ægilega svekktir. Við vorum orðnir svo peppaðir fyrir þessu núna og höfðum góða tilfinningu fyrir þessu. En við látum það ekki eftir okkur að liggja að reyna að bæla þennan faraldur niður,“ segir Ársæll Aðalbergsson, framkvæmdastjóri Skógarmanna KFUM, í samtali við Vísi.

Nýjar samkomutakmarkanir taka gildi nú á miðnætti sem kveða meðal annars á um 200 manna fjöldatakmark og eins metra reglu. 

„Við sjáum engan möguleika á að halda þetta með þessum reglum og það var ekki annað að gera en að blása þetta af í dag.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×