Fótbolti

Solskjær framlengir við Manchester United

Valur Páll Eiríksson skrifar
Solskjær verður áfram við stjórnvölin næstu þrjú árin í rauða hluta Manchester-borgar.
Solskjær verður áfram við stjórnvölin næstu þrjú árin í rauða hluta Manchester-borgar. Andy Rain/Getty

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við félagið. United gaf út tilkynningu þess efnis í dag.

Solskjær tók við United af Portúgalanum José Mourinho í árslok 2018 og var þá ráðinn til bráðabirgða. Í kjölfar þess gerði hann þriggja ára samning sem rann til næsta sumars, 2022.

Nú hefur United tryggt framtíð Norðmannsins hjá félaginu með nýjum þriggja ára samningi, sem rennur út sumarið 2024.

United fékk 66 stig undir stjórn Solskjærs eftir að hann tók við af Mourinho, en fékk sama stigafjölda á fyrsta heila tímabilinu undir hans stjórn. Á því fyrra hafnaði United í 6. sæti deildarinnar en það dugði til 3. sætis á því síðara. United komst þá í undanúrslit í þremur keppnum; deildabikarnum, FA-bikarnum og Evrópudeildinni tímabilið 2019-20 undir stjórn Solskjærs.

Á nýliðinni leiktíð stýrði Solskjær liðinu í annað sæti deildarinnar, á eftir grönnunum í Manchester City, og varð hann þar með sá fyrsti til að stýra United í Meistaradeildarsæti tvö tímabil í röð frá því að Sir Alex Ferguson hætti árið 2013. Liðið komst þá í úrslit Evrópudeildarinnar en tapaði fyrir spænska liðinu Villarreal eftir vítaspyrnukeppni í undanúrslitum.

Solskjær leitar enn síns fyrsta titils með félaginu, það er sem stjóri, en hann vann sex Englandsmeistaratitla, auk tveggja bikartitla og Meistaradeildartitils sem leikmaður félagsins árin 1996 til 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×