Umfjöllun og viðtöl: ÍA 0-3 FH |Lennon lagði lánlausa Skagamenn

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Pepsi deild karla vetur 2021 fótbolti KSÍ
Pepsi deild karla vetur 2021 fótbolti KSÍ Foto: FH Sambandsdeild Evrópu Rosenborg Fótbolti/Hulda Margrét

FH-ingar tóku stigin þrjú þegar þeir gerðu sér ferð upp á Akranes þar sem heimamenn í ÍA tóku á móti þeim. Steven Lennon skoraði öll mörk FH í 3-0 sigri, og þar af komu tvö af vítapunktinum.

Þrútið var loft og þungur sjór sagði skáldið eitt sinn, og hefði það verið rétt kveðið um veðrið á Jaðarsbökkum á Akranesi í dag þegar að heimamenn í ÍA fengu eitt af vonbrigðaliðum sumarsins í heimsókn. Fimleikafélagsmenn frá Hafnarfirði mættir í heimsókn. Fyrir leikinn voru FH í sjöunda sæti deildarinnar með 15 stig en Akurnesingar sátu á botninum með 9 stig. FH unnu nauman sigur á Fylki í síðustu umferð en ÍA vann sinn besta sigur í sumar á Valsmönnum á heimavelli.

Til að gera langa sögu stutta þá voru gestirnir mun sterkari og unnu að lokum sanngjarnan 0-3 sigur á lánlausum Skagamönnum. Steven Lennon með öll mörkin og er hann nú kominn með 8 mörk í deildinni.

Leikurinn byrjaði ekkert sérstaklega fallega og hafði veðrið mikið um það að segja. Skagamenn léku undan vindi og reyndu í upphafi að setja pressu á FH og vinna horn og innköst. Það gekk reyndar ágætlega því heimamenn fengu talsvert mörg horn og innköst til þess að koma boltanum inn í teiginn. Þessar tilraunir voru því miður fyrir heimamenn frekar slakar, þeir sköpuðu sér ekki færi að ráði en virtust mestmegnis treysta á að skapa darraðadans í teignum þannig að boltinn myndi enda í netinu.

Skagamenn höfðu ákveðin undirtök í leiknum fyrstu 15 mínúturnar en eftir það voru það gestirnir sem réðu lögum og lofum. Áttu FHingar nokkur skot á markið á þessum tíma án þess þó að valda hinum unga markmanni heimamanna, Árna Marínó, teljandi vandræðum.

Það var svo á 33. mínútu leiksins sem að dró almennilega til tíðinda. Baldur Logi sendi boltann inn á teiginn þar sem Hlynur, varnarmaður ÍA týndi Steven Lennon af öllum mönnum og missti hann inn fyrir sig. Hlynur brá á það ráð að að grípa utan um Lennon sem féll strax til jarðar og víti réttilega dæmt. Lennon var ekkert sérstaklega stressaður yfir þessu, sótti boltann sjálfur, setti markvörðinn í rangt horn og skoraði af öryggi. 0-1 og farið að fara um kappklædda stuðningsmenn heimaliðsins í stúkunni.

Heimamenn reyndu þó að svara, Ísak Snær Þorvaldsson komst upp að endamörkum og gaf fyrir en Viktor Jónsson náði ekki að gera Gunnari Nielsen erfitt fyrir með skalla. 0-1 í hálfleik.

Gestirnir gerðu út um leikinn á fyrstu fimm mínútum síðari hálfleiks. Eftir nokkuð slaka fyrirgjöf frá Herði Inga skoppaði boltinn hátt í loft fyrir framan Eggert Gunnþór. Alex Davey gerði sig líklegan til þess að reyna að ná til knattarins og þá sá Eggert sér leik á borði og fór niður við mjög litla snertingu. Aftur dæmt víti, í þetta sinn fyrir frekar litlar sakir. Steven Lennon var að sjálfsögðu alveg sama og hamraði boltann uppi vinstra megin. 0-2 og erfitt að sjá annað en FH sigur í kortunum.

Átta mínútum seinna þá fékk Baldur Logi boltann á kantinum, lék inn í teiginn og fann þar Lennon með góðum bolta. Lennon tók snertingu til hægri til þess að losa sig og smellti boltanum í hornið. 0-3 og leikurinn í raun búinn. Brynjar Snær Pálsson leikmaður ÍA fékk reyndar gullið tækifæri til þess að minnka muninn en skaut í stöng. FH fékk svo nokkur góð færi til þess að gera markatöluna enn betri en inn vildi boltinn ekki. Lokatölur: 0-3. Sanngjarn og ágætlega þægilegur sigur FH staðreynd.

Maður leiksins

Það er ekki erfitt að velja mann leiksins í þessum. Steven Lennon skoraði öll þrjú mörkin, fiskaði fyrsta vítið og var mjög hættulegur þess utan. Frábær leikur hjá Skotanum sem margir vilja meina að sé einn besti erlendi leikmaðurinn sem hefur spilað í efstu deild á Íslandi.

Hvað gekk vel?

Fyrir utan fyrsta korterið þá gekk FH vörninni mjög vel að loka á allt sem heimamenn reyndu að gera. Guðmann og Guðmundur í hjarta varnarinnar voru geysilega öruggir og ekki voru bakverðir liðsins mikið síðri. Þá voru stórfiskarnir Eggert Gunnþór og Matthías Vilhjálmsson flottir í þessum leik. Fréttaritari vill líka koma inn á það að Baldur Logi Guðlaugsson átti frábæran leik á kantinum og réðu varnarmenn Akurnesinga ekkert við hann.

Hvað gekk illa?

Miðlumenn heimamanna voru í vandræðum allan leikinn. Þeir lentu fljótlega undir í baráttunni og það átti bara eftir að versna eftir því sem leið á leikinn. Féllu full djúpt og veittu Viktori Jónssyni í framlínunni svo gott sem engan stuðning.

Ólafur Jóhannesson: Okkur leið vel þegar við skoruðum mark númer tvö

Ólafur Jóhannesson, þjálfari FH, var að vonum sáttur með stigin þrjú.Vísir/Bára Dröfn

Ólafur Jóhannesson var að vonum sáttur eftir 0-3 sigur sinna manna á Akranesi í dag.

„Leikurinn breyttist talsvert eftir mark númer tvö. Þá vorum við komnir í ansi þægilega forystu með vindinn í bakið þó að það sé vissulega stundum hættuleg staða að vera í.“

Steven Lennon skoraði þrennu í þessum leik og er kominn nálægt því að vera með 100 mörk í efstu deild á Íslandi. Ólafur var ánægður með sinn mann.

„Já, hann er frábær leikmaður og er markaskorari og hefði svosem getað gert fleiri mörk í dag.“

FH gat leyft sér að senda inn unga og efnilega stráka sem stóðu sig margir vel, aðspurður sagði Ólafur að það væri ákveðið markmið í sjálfu sér að spila þeim.

„Já við höfum notað svolítið af yngri leikmönnum til þess að koma inná og það hefur tvímælalaust hjálpað okkur í þessu álagi og gott að vita að það er hægt að treysta þeim.“

Aðspurður sagði Ólafur að markmið liðsins væru skýr.

„Við settum okkur ákveðin markmið þegar ég kom inn og þau eru á pari núna.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.