Innlent

Annar stór dagur í sýnatöku

Eiður Þór Árnason skrifar
Svona var staðan við Suðurlandsbraut á þriðja tímanum í dag. Röðin gekk nokkuð hratt fyrir sig og þurfti fólk að bíða í rúman hálftíma eftir því að komast að.
Svona var staðan við Suðurlandsbraut á þriðja tímanum í dag. Röðin gekk nokkuð hratt fyrir sig og þurfti fólk að bíða í rúman hálftíma eftir því að komast að. Vísir

Stór dagur hefur verið í Covid-sýnatöku hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í dag og stefnir í að hann verði sambærilegur gærdeginum þegar tekin voru sýni hjá um þrjú þúsund einstaklingum. Hefur fjöldinn ekki verið meiri frá því um miðjan apríl.

Löng röð hefur myndast við húsnæði heilsugæslunnar á Suðurlandsbraut í dag líkt og síðustu daga. Fjöldi innanlandssýna hefur farið stigvaxandi samhliða aukningu í fjölda greindra smita.

Ingibjörg Salóme Steindórsdóttir, verkefnastjóri hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að dagurinn hafi gengið vel fyrir sig þrátt fyrir mikið álag á starfsfólk. Mörg þeirra hafa ekki enn fengið tækifæri til að taka sér langþráð sumarleyfi.

Staðan komi ekki á óvart

„Við eigum alveg eftir þrjú korter og röðin er ansi löng,“ sagði hún í samtali við Vísi á fjórða tímanum í dag. „Við getum tekið ansi marga á þremur korterum.“

Hún bætir við að 1.700 til 1.800 hafi verið bókaðir í einkennasýnatöku og sóttkvíarskimun í dag en þá á eftir að taka skimun ferðamanna með inn í reikninginn. Heildartalan kemur ekki í ljós fyrr en síðar í dag.

Aðspurð um það hvort þessi hraða aukning í fjölda smita og sýnatöku nú þegar stærsti hluti þjóðarinnar hefur verið bólusettur komi henni í opna skjöldu segir Ingibjörg svo ekki vera.

„Þetta kom mér ekkert á óvart, ég var eiginlega bara að bíða eftir þessu. Við vinnum þetta bara áfram og byrjum aftur á því sem við þekkjum. Við erum alltaf að læra í leiðinni og vonandi náum við að stoppa bylgju.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×