Um­fjöllun, við­töl og myndir: FH - Rosen­­­borg 0-2 | Gestirnir refsuðu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rosenborg vann 2-0 sigur í Kaplakrika.
Rosenborg vann 2-0 sigur í Kaplakrika. Vísir/Hulda Margrét

Góð lið refsa alltaf og það sannaði Rosenborg í kvöld er liðið vann 2-0 sigur á FH er liðin mættust í Kaplakrika í 2. umferð Sambandsdeildar Evrópu. Það er því á brattan að sækja fyrir Hafnfirðinga í síðari leiknum sem fram fer eftir viku.

Bæði lið stilltu upp í 4-3-3 leikkerfi og í byrjunarliði gestanna mátti finna íslenska landsliðsmanninn Hólmar Örn Eyjólfsson. Það var ljóst á viðtali Davíðs Þórs Viðarssonar, þjálfara FH, fyrir leik hvernig leikurinn yrði framan af. Heimamenn ætluðu að sitja djúpt, verja mark sitt, sækja hratt og pirra andstæðinginn.

Hólmar Örn og Steven Lennon í baráttunni.Vísir/Hulda Margrét

Það gekk vel framan af en fyrri hálfleikur var ekki mikið fyrir augað. FH-ingar vörðust fimlega en gestirnir frá Noregi virkuðu þreyttir eftir flugið. Rosenborg vissulega meira með boltann en það gekk lítið upp sóknarlega og var sóknarleikur þeirra aðallega byggður upp á fyrirgjöfum og langskotum.

Heimamenn voru nokkrum sinnum nálægt því að komast í fín færi en það vantaði alltaf herslumuninn. Jónatan Ingi Jónsson átti til að mynda skot í stöng snemma leiks eftir góða sókn heimamanna upp vinstri vænginn. Hörður Ingi Gunnarsson fann Vuk Óskar Dimitrijevic sem gaf fyrir en boltinn aðeins fyrir aftan Jónatan Ingi sem náði þó að teygja sig í hann og átti skot sem hafnaði í tréverkinu.

Jóntan Ingi átti fínan leik í kvöld. Var óheppinn að skora ekki.Vísir/Hulda Margrét

Staðan var hins vegar markalaus í hálfleik og það var bókstaflega ekkert að gerast þegar gestirnir tóku forystuna. Carlo Holse var þá einn á auðum sjó inn í vítateig FH en þessi lágvaxni og lunkni vængmaður stýrði fyrirgjöf Adam Andersson í netið af markteig.

Markið kom eftir klukkutíma leik og var eins og köld tuska í andlit FH-inga. Aðeins tíu mínútur síðar var staðan orðin 2-0 gestunum í vil.

Dino Islamovic með markið en aftur kom fyrirgjöf frá vinstri, Dino var einn á auðum sjó í markteignum en Gunnar Nielsen varði meistaralega. Einhvern veginn endaði boltinn aftur hjá Dino sem böðlaði honum í netið með vinstri fæti.

Eftir þetta gerðu FH-ingar fjöldann allan af skiptingum og reyndu að hleypa leiknum aðeins upp eftir að hafa setið aftarlega nær allan leikinn. Það skilaði sér í því að Matthías Vilhjálmsson fékk dauðafæri eftir góða skyndisókn en Jónatan Ingi renndi boltanum í gegnum vörn gestanna.

André Hansen er hins vegar betri en enginn í markinu og varði meistaralega. Jónatan sjálfur fékk svo fínt færi undir lok leiks en allt kom fyrir ekki. Lokatölur 2-0 Rosenborg í vil.

André Hansen í baráttunni í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Af hverju vann Rosenborg?

Meiri gæði í heildina litið. Sigurinn þó full stór miðað við spilamennsku liðanna.

Hverjar stóðu upp úr?

Gunnar Nielsen átti flottan leik í liði FH. Jónatan Ingi var sprækur á vængnum þó hornspyrnur hans hefðu mátt vera betri. Þá var Matthías mjög flottur í dag.

Hvað gekk illa?

FH hefði þurft að nýta færin sín betur til að vera inn í einvíginu. Það er ákveðið fjall að þurfa 3-0 sigur í Noregi.

Erfitt þegar þú færð á þig mark eftir að þú missir einbeitingu í smástund

Davíð Þór Viðarsson er þjálfari FH ásamt Ólafi Jóhannessyni.Vísir/Bára Dröfn

„Mér fannst að hann einhverju leyti fara frá okkur því við nýttum ekki tvö góð færi sem við fáum í stöðunni 0-0. Við vissum alveg að yrði erfitt að verjast svona lágt eins og við ætluðum að gera. Við lokuðum frábærlega á þá í fyrri hálfleik fannst mér. Svo refsa þeir okkur, við náum ekki alveg að fylgja nægilega vel eftir í varnarleiknum. Þegar þeir komust yfir misstum við aðeins trúnna fannst mér í smá tíma,“ sagði Davíð Þór Viðarsson, þjálfari FH, að leik loknum.

„Held það sé alltaf erfitt þegar þú færð á þig mark eftir að leggja svona svakalega mikla vinnu á þig og búinn að sjá til þess að þeir hafi varla færi fram að því í leiknum þá er þetta erfitt þegar þú færð á þig mark eftir að þú missir einbeitingu í smástund. Erfitt að vinna sig upp úr því. Við náttúrulega fáum á okkur annað mark þar sem Gunni ver frábærlega en við náum ekki að hreinsa þrátt fyrir að vera nokkrir í kringum boltann.“

Annað mark Rosenborgar í uppsiglingu.Vísir/Hulda Margrét

„Mér fannst við samt í seinni hluta síðari hálfleiks vera mjög öflugir og menn voru ekki búnir að gefast upp. Þeir sem komu inn á voru mjög ferskir fannst mér, sköpuðu mikinn usla. Frábært að sjá að menn væru tilbúnir að koma inn og spila á þessu getustigi sem er ansi hátt.“

Munurinn á liðunum í kvöld var aðallega sá að Rosenborg refsaði FH fyrir að nýta ekki færin sín.

„Það er oft talað um að munurinn á atvinnumannaliði og hálfatvinnumannaliði eins og við erum liggur þarna. Það virðist vera þannig og maður lenti oft í þessu sem leikmaður að spila á móti liði sem var miklu sterkara á pappírunum, fannst við með leikinn alveg í skefjum eins og í dag en svo missir maður einbeitingu í smástund og þeir refsa fyrir það. Svona er fótbolti í dag og við þurfum að halda áfram að vinna í því að koma okkur nær þessum liðum í Skandinavíu þó svo að leiðin sé örlítið lengi en maður hefði viljað,“ sagði Davíð Þór Viðarsson að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.