Þetta segir Þórólfur í samtali við fréttastofu en hann tilkynnti á upplýsingafundi almannavarna fyrr í dag að hann ætli að leggja til innanlandstakmarkanir. 78 greindust smitaðir af kórónuveirunni í gær, sem er mesti fjöldi það sem af er ári. 59 af þeim smituðu greindustu utan sóttkvíar.
Hann segist ekki viss um hvenær aðgerðir taki gildi verði gripið til þeirra en vonast til að það verði sem fyrst. Samkvæmt heimildum fréttastofu mun ríkisstjórnin funda í ráðherrabústaðnum á morgun.
„Það er alfarið á ábyrgð ráðherra, sem ber ábyrgð á þessum málaflokki, að ákveða það. En ég vona bara að það verði gert sem fyrst. Ef menn ætla að grípa til aðgerða er eins gott að gera það eins fljótt og hægt er,“ segir Þórólfur.
„Það er allt undir finnst mér,“ bætir hann við.
Þórólfur segist ekki vilja greina frá tillögum sínum um takmarkanir fyrr en ráðherra og ríkisstjórn eru búin að fjalla um tillögurnar.
„Mér finnst það ekki viðeigandi en við höfum verið að grípa til svipaðra ráðstafna fyrr í faraldrinum sem hafa nýst okkur vel. Ég held að við þurfum að nýta okkur það áfram.“