Fótbolti

Sektað vegna hegðunar stuðnings­fólks síns í leiknum gegn Ís­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rúnar Alex Rúnarsson í leiknum gegn Mexíkó. Er hann tók markspyrnur voru níðsöngvar ítrekað sungnir.
Rúnar Alex Rúnarsson í leiknum gegn Mexíkó. Er hann tók markspyrnur voru níðsöngvar ítrekað sungnir. Matthew Pearce/Getty Images

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur ákveðið að sekta knattspyrnusamband Mexíkó vegna hegðunar stuðningsfólks þess í 2-1 sigrinum gegn Íslandi er þjóðirnar mættust í vináttulandsleik í maí á þessu ári.

Ísland og Mexíkó mættust í vináttulandsleik í Bandaríkjunum undir lok maímánaðar áður en íslenska liðið hélt til Færeyja og svo Póllands til að leika tvo leiki til viðbótar.

Stuðningsfólks Mexíkó lét sig ekki vanta á leikinn þó hann væri hinum megin við landamærin og var fjölmennt á leiknum. 

Því miður söng stuðningsfólk „heimamanna“ miður fallega söngva á meðan leik stóð og hefur FIFA nú ákveðið að sekta knattspyrnusamband Mexíkó um 109 þúsund Bandaríkjadali eða rúmlega 13 og hálfa milljón íslenskra króna.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem FIFA sektar Mexíkó og þá hefur landsliðið þurft að leika fyrir luktum dyrum vegna hegðunar stuðningsfólks síns.

Markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson varð ítrekað fyrir barðinu á níðsöngvum stuðningsfólks Mexíkó í leiknum er hann tók markspyrnur. Þó dómarinn hafi stöðvað leikinn tímabundið þá héldu söngvarnir alltaf áfram.

„Söngvarnir hvetja til mismununar og eru að ýta okkur lengra frá keppnum á vegum FIFA. Fyrir þau ykkar sem finnst skemmtilegt og fyndið að syngja þessa söngva, það er það ekki“ sagði Yon de Luisa, forseti knattspyrnusambands Mexíkó, um málið.

ESPN greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×