Fótbolti

Svíar stöðvuðu rúmlega tveggja ára taplausa hrinu bandarísku heimsmeistaranna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stina Blackstenius (nr. 11) fagnar með samherjum sínum eftir að hafa komið Svíþjóð yfir gegn Bandaríkjunum.
Stina Blackstenius (nr. 11) fagnar með samherjum sínum eftir að hafa komið Svíþjóð yfir gegn Bandaríkjunum. getty/Ian MacNicol

Svíþjóð gerði sér lítið fyrir og skellti heimsmeisturum Bandaríkjanna, 3-0, í G-riðli fótboltakeppni Ólympíuleikanna sem hófst í dag.

Þetta var fyrsta tap bandaríska liðsins í 45 leikjum, eða síðan það tapaði fyrir Frakklandi, 1-3, í vináttulandsleik í janúar 2019.

Stina Blackstenius skoraði tvö mörk fyrir Svía í leiknum í dag og Lina Hurtig eitt. 

Svíþjóð sló Bandaríkin eftirminnilega út í átta liða úrslitum á síðustu Ólympíuleikum og gerði bandaríska liðinu annan grikk í dag.

Í fyrsta leik fótboltakeppninnar á Ólympíuleikunum vann Bretland 2-0 sigur á Síle. Ellen White skoraði bæði mörk breska liðsins sem er komið með þrjú stig í E-riðli.

Marta skoraði tvö mörk þegar Brasilía vann stórsigur á Kína, 0-5, í F-riðli. Debinha, Andressa (víti) og Beatriz voru einnig á skotskónum. Marta er fyrsti leikmaðurinn sem skorar á fimm Ólympíuleikum.

Hin 43 ára Formiga var í byrjunarliði Brasilíu í fyrsta leiknum á sínum sjöundu Ólympíuleikum. Engin íþróttamaður hefur tekið jafn oft þátt í liðakeppni á Ólympíuleikum í sögu þeirra.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.