Innlent

Óléttri konu með smábarn vísað úr landi

Snorri Másson skrifar
Ghafran Ninal, Ahmad Flahan og Elen Flahan, dóttir þeirra, verða send úr landi á næstunni, komi ekki til þess að réttaráhrifum úrskurðar í þeirra máli verði frestað. Ef þau mættu ráða mundu þau þó ala hér allan sinn aldur.
Ghafran Ninal, Ahmad Flahan og Elen Flahan, dóttir þeirra, verða send úr landi á næstunni, komi ekki til þess að réttaráhrifum úrskurðar í þeirra máli verði frestað. Ef þau mættu ráða mundu þau þó ala hér allan sinn aldur. Stöð 2

Sýrlensk fjölskylda segir að ekkert bíði sín annað en örbirgð og vonleysi á götum Grikklands, eftir að Útlendingastofnun tilkynnti þeim í síðustu viku um að umsókn þeirra um hæli verði ekki tekin til meðferðar. Hjónin óttast um framtíð tveggja ára dóttur sinnar og ófædds barns sem konan ber undir belti.

Ahmad og Ghafran Ninal flúðu undan lífshættulegu stríðsástandi í Sýrlandi fyrir um þremur árum og fengu hæli í Grikklandi. Aðstæður þeirra þar fóru með árunum síversnandi og flóttamannabúðirnar urðu sífellt yfirfyllri.

Síðan má segja að Covid-19 hafi sett líf fjölskyldunnar endanlega úr skorðum; þau lentu allslaus á götunni með rúmlega eins árs dóttur sína Elen, sem þeim tókst ekki að útvega fæði, hvað þá eðlilegar bólusetningar fyrir börn. Þá leituðu þau til Íslands, sem er eins og paradís fyrir þeim, segja þau.

„Þau voru svo hjálpsöm og færðu okkur á hótel. Ég er frá Sýrlandi og ég sá ekki svoleiðis í heimalandi mínu Sýrlandi,“ segir Ahmad um komuna til landsins.

Ghafran vill ala bæði dóttur sína og ófætt barn upp hér á landi. „Við viljum að barnið okkar alist upp hér á Íslandi af því að hér á Íslandi er öryggi og í Grikklandi var þetta ekki þannig. Það var ekki öruggt að vera, meðal annars vegna fíkniefnaneytenda og -seljenda,“ segir hún.

Vilja taka þátt í íslensku samfélagi

Ekkert er fjarri hjónunum en að vera byrði á íslensku samfélagi - þau vilja taka til starfa og stofna hér til öruggs lífs með börnum sínum.

„Okkur langar að vera íslenskir ríkisborgarar, ekki bara búsett á Íslandi,“ segir Ahmad, sem var í heimalandi sínu málari og markvörður í knattspyrnuliði.

„Við viljum gjarnan læra tungumálið, vinna hérna og vera hluti af íslensku samfélagi,” segir Ghafran, sem er þegar farin að skilja nokkra íslensku og er sérlega duglegur nemandi að sögn kennara hennar í tungumálaskólanum. 

Ghafran heldur áfram: „Við erum komin hingað til Íslands til að vera hérna alla ævi. Okkur langar að lifa á Íslandi og deyja á Íslandi.”

Örbirgð í Grikklandi eða enn verri örlög í stríðshrjáðu heimalandi

Ahmad óttast að ef þau fari til Grikklands geti farið svo að lokum að þau hrekjist aftur til Sýrlands. Þótt stríðsátök þar séu minni núna en áður segir Ahmad að endi þau aftur í Sýrlandi sé líf þeirra svo gott sem búið.

Fjölskyldan óttast mjög að koma aftur til Grikklands.Stöð 2

„Ef við snúum til baka getum við ekki lifað. Við þurfum að vera á götunni, það er enginn matur til að borða og við erum án sjúkratrygginga. Það gæti líka gerst að frá Grikklandi verði okkur vísað á endanum til Sýrlands,“ segir Ahmad.

Hann er í samskiptum við fólkið sitt í Sýrlandi í gegnum Facebook. Af þeim samskiptum er ljóst hver staðan er. „Það er enn þá stríð og yfirvöld eru að gera árásir á ákveðin svæði daglega. Það er enn þá stríð í gangi,“ segir Ahmad.

Óforsvaranlegt að senda fólk til Grikklands

Þegar hefur verið óskað eftir frestun réttaráhrifa í máli fjölskyldunnar, þannig að henni vinnist tími til að greiða frekar úr sínum málum. Ef tekið er mið af eldri dæmum má þó vera ljóst að á brattann er að sækja. 

Lögmaður fjölskyldunnar, Magnús Norðdahl, segir í samtali við fréttastofu að hann telji það óforsvaranlegt af hálfu stjórnvalda að meta ástandið í Grikklandi þannig að tækt sé að senda þangað fólk vegna þess að þar hafi það fengið hæli.

Íslensk stjórnvöld hafa áður látið af brottvísunum til ákveðinna landa þar sem umsækjendur hafa þegar fengið vernd, en það var aðeins gert tímabundið í tilfelli Grikklands hér um árið og það var vegna Covid-19, en ekki vegna þess að þar njóti hælisleitendur oft ekki fæðu og húsnæðis.


Tengdar fréttir

Kallar eftir af­sögn dóms­mála­ráð­herra

Skaða- og miskabótamál verður höfðað gegn Útlendingastofnun fyrir að hafa svipt flóttamenn þjónustu og húsnæði. Samkvæmt niðurstöðu kærunefndar útlendingamála var það óheimilt og lögmaður telur að dómsmálaráðherra eigi að segja af sér vegna málsins.

Út­­lendinga­­stofnun getur ekki hætt að senda til Grikk­lands

Út­lendinga­stofnun telur sig al­gjör­lega bundna af gildandi lögum sem hún fylgir í máli Palestínu­mannanna fjór­tán sem voru sviptir allri þjónustu stofnunarinnar, hús­næði og fæði. Hún geti ekki tekið mál ein­stak­linganna til efnis­legrar með­ferðar því þeir hafi hlotið vernd í Grikk­landi og staða faraldursins þar sé ekki nægileg ástæða til.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.