„Gosórói féll niður rétt fyrir klukkan fimm,“ sagði Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, í kvöld.
Ekkert hefur sést til gígsins á vefmyndavélum í kvöld vegna slæms skyggnis og því segir Einar erfitt að segja til um stöðuna. Á vefmyndavél í Meradölum sást þó að hraun rann ekki lengur á yfirborði. Einar telur þó ekki hægt að útiloka að það renni undir yfirborði.
Miðað við það sem lesa má út úr óróaritinu segir Einar það gefa svipaða mynd í kvöld og var þegar engin virkni sást í gígnum.

Jarðvísindamenn merktu eðlisbreytingu á eldgosinu fyrir rúmum þremur vikum þegar hlé varð á gosvirkni í fyrsta sinn frá upphafi gossins þann 19. mars. Síðan hafa skipst á mislangar goshrinur og goshlé, lengsta hléið í fjóra sólarhringa í síðustu viku.
Þá tók við fimm sólarhringa goshrina um síðustu helgi sem lauk aðfararnótt fimmtudags. Gosið tók sig svo aftur upp síðdegis í gær, föstudag.
Ekki er að sjá neina reglu á lengd goshléa og því til lítils að spá hvenær eða hvort eldgígurinn vaknar á ný.
Hér má fylgjast með breytingum á óróariti frá jarðskjálftamæli við Grindavík.
Uppfært klukkan 6.20: Eldgosið tók aftur við sér í nótt