Innlent

Gosvirkni aftur fallin niður í Fagradalsfjalli

Kristján Már Unnarsson skrifar
Myndarlegar hraunár flæddu til austurs niður í Meradali frá eldgígnum síðdegis í gær, sem vefmyndavél Almannavarna og Veðurstofu fangaði.
Myndarlegar hraunár flæddu til austurs niður í Meradali frá eldgígnum síðdegis í gær, sem vefmyndavél Almannavarna og Veðurstofu fangaði. Almannavarnir, Veðurstofa Íslands/vefmyndavél.

Eldstöðin í Fagradalsfjalli virðist aftur lögst í dvala eftir sólarhrings goshrinu. Jarðskjálftamælar Veðurstofunnar sýna að gosvirkni féll niður síðdegis.

„Gosórói féll niður rétt fyrir klukkan fimm,“ sagði Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, í kvöld.

Ekkert hefur sést til gígsins á vefmyndavélum í kvöld vegna slæms skyggnis og því segir Einar erfitt að segja til um stöðuna. Á vefmyndavél í Meradölum sást þó að hraun rann ekki lengur á yfirborði. Einar telur þó ekki hægt að útiloka að það renni undir yfirborði.

Miðað við það sem lesa má út úr óróaritinu segir Einar það gefa svipaða mynd í kvöld og var þegar engin virkni sást í gígnum.

Óróaritið klukkan 23 í kvöld.Veðurstofa Íslands

Jarðvísindamenn merktu eðlisbreytingu á eldgosinu fyrir rúmum þremur vikum þegar hlé varð á gosvirkni í fyrsta sinn frá upphafi gossins þann 19. mars. Síðan hafa skipst á mislangar goshrinur og goshlé, lengsta hléið í fjóra sólarhringa í síðustu viku.

Þá tók við fimm sólarhringa goshrina um síðustu helgi sem lauk aðfararnótt fimmtudags. Gosið tók sig svo aftur upp síðdegis í gær, föstudag.

Ekki er að sjá neina reglu á lengd goshléa og því til lítils að spá hvenær eða hvort eldgígurinn vaknar á ný.

Hér má fylgjast með breytingum á óróariti frá jarðskjálftamæli við Grindavík.

Uppfært klukkan 6.20: Eldgosið tók aftur við sér í nótt


Tengdar fréttir

Virknin komin á fullt eftir sólar­hrings­hlé

Púlsavirkni í eldgosinu við Fagradalsfjall er aftur komin á fullt eftir rúmlega sólarhrings goshlé nú fyrir helgi. Náttúruvársérfræðingur beinir því sérstaklega til fólks að fara ekki út á hraunið en talsvert hefur borið á slíku undanfarið.

Þetta er núna vinsælasti útsýnisstaðurinn á gosið

Drónamyndir sem náðust af gosstöðvunum á Fagradalsfjalli um helgina sýna að hraunelfa flæddi úr eldgígnum um göng og þaðan í átt til Meradala. Slæmt skyggni hefur í dag byrgt sýn að eldgosinu en óróamælar sýna að það hefur haldið fullum dampi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.