Gosvirkni lá niðri í næstum viku á dögunum og þá gerði aftur hlé á virkninni í um sólarhring frá fimmtudegi í gær. Nú er eldgosið hins vegar búið að vera í gangi í alla nótt, að sögn Bjarka Kaldalóns Friis náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
„Svo auðvitað lá þetta niðri í rúmlega sólarhring, þrjátíu, þrjátíu og tveir tímar áður en þetta byrjaði aftur í gærmorgun, óróinn byrjaði að vaxa um tíuleytið í gærmorgun og svo klukkan sextán var komin glóð í pottinum sem ég gat séð á vefmyndavél, en auðvitað er skyggnið ekki búið að vera neitt æðislegt,“ segir Bjarki.
Hann segir að duglega hafi flætt úr gígnum sjálfum og niður í Meradali. Um miðnætti í nótt hafi púlsavirkni hafist, með púlsum sem standi yfir í um tíu til fimmtán mínútur.
Þá hafi borið talsvert á því upp á síðkastið að fólk sé að hætta sér út á hraunið.
„Þetta eru auðvitað bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn en erlendir eru meira núna að labba út á þetta því gosið liggur niðri og maður sér ekkert rautt. Þá heldur fólk að þetta sé búið en það er auðvitað allt flæðandi í innri rásum og heitt undir hrauninu líka. Sumir taka bara áhættuna en sumir vita bara ekkert af hættunni.“
Veður við gosstöðvarnar hefur verið fínt niðri í Nátthaga en við Langahrygg hefur skyggni verið lélegt í morgun. Það á þó að rofa til með deginum og því ekki loku fyrir það skotið að vel muni viðra til göngu.