Fótbolti

Ráðning Mourinho kom Smalling á óvart

Anton Ingi Leifsson skrifar
Smalling hefur gert það gott eftir að hann flutti sig yfir til Ítalíu.
Smalling hefur gert það gott eftir að hann flutti sig yfir til Ítalíu. EPA-EFE/CARMELO IMBESI

Chris Smalling, varnarmaður Roma, segir að ráðning Jose Mourinho til ítalska liðsins hafi komið honum á óvart en það geri hann einnig spenntan.

Mourinho tók við Roma liðinu í sumar af Paulo Foncesca en Mourinho hafði verið án starfs síðan í aprílmánuði er hann var rekinn frá Tottenham.

Mourinho og Smalling unnu saman hjá Manchester United þar sem þeir lentu upp á kant en Mourinho gagnrýndi meðal annars Smalling opinberlega árið 2016

„Þetta var nokkuð óvænt fyrir marga okkar en það er einnig spenna í hópnum. Hann er fæddur sigurvegari og hann ýtir mönnum eins langt og mögulegt er. Hann hefur gert það á sínum ferli og það hefur skapað úrslit,“ sagði Smalling.

„Við höfum unnið bikara saman. Hann gerði mig einnig að fyrirliða í einum úrslitaleiknum, árið 2017 í úrslitaleik enska deildarbikarsins. Að hafa möguleika að spila undir einhverjum sem þú þekkir, hefur náð árangri og gerir allt til þess að vinna bikara er jákvætt.“

„Ég veit hversu stórt það yrði að fá bikar til félagsins. Saga Jose sýnir að hann er hinn fullkomni til þess að ná í bikara,“ sagði Smalling.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×