Fótbolti

Félagi Sveins Arons bannað að kaupa leikmenn í tvö ár

Sindri Sverrisson skrifar
Sveinn Aron Guðjohnsen lék 15 leiki fyrir Spezia leiktíðina 2019-20, þegar liðið vann sig upp í A-deild, en fór svo að láni til OB á síðustu leiktíð.
Sveinn Aron Guðjohnsen lék 15 leiki fyrir Spezia leiktíðina 2019-20, þegar liðið vann sig upp í A-deild, en fór svo að láni til OB á síðustu leiktíð. Getty

Ítalska knattspyrnufélagið Spezia hefur verið sett í kaupbann til næstu tveggja ára. Það þýðir að félagið má ekki kaupa leikmenn í næstu fjórum félagaskiptagluggum.

Landsliðsframherjinn Sveinn Aron Guðjohnsen er leikmaður Spezia en hann var að láni hjá danska félaginu OB á síðustu leiktíð og hefur undanfarið verið við æfingar hjá SönderjyskE.

Það er FIFA, alþjóðaknattspyrnusambandið, sem hefur sett Spezia í bann frá leikmannamarkaðnum. Sambandið komst að þeirri niðurstöðu að Spezia hefði brotið reglur um kaup á ungum leikmönnum þegar félagið sótti sér nokkra nígeríska leikmenn sem ekki höfðu náð 18 ára aldri.

Spezia má kaupa leikmenn í félagaskiptaglugganum núna í sumar en ekki næstu tvo janúarmánuði né næstu tvö sumur. 

Spezia þarf einnig að greiða sekt upp á hálfa milljón svissneskra franka eða jafnvirði 67 milljóna króna.

Forráðamenn Spezia segjast undrandi á niðurstöðunni og hafa ákveðið að áfrýja henni.

Sveinn Aron lék síðast með Spezia leiktíðina 2019-20 þegar liðið vann sig upp í A-deildina. Liðið hélt sæti sínu þar í vor.

Spezia hefur verið í eigu Bandaríkjamanna, undir forystu fjölskyldu Roberts Platek, síðan í febrúar. Fyrr í þessum mánuði réði félagið Thiago Motta, fyrrverandi landsliðsmann Ítalíu, sem þjálfara eftir að Vincenzo Italiano var ráðinn til Fiorentina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×