Fótbolti

Messi sendi 100 ára gömlum að­dá­enda hjart­næma kveðju

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Argentínumaðurinn Don Hernan fylgist vel með Lionel Messi.
Argentínumaðurinn Don Hernan fylgist vel með Lionel Messi. Samsett/Twitter

Hinn 100 ára gamli Don Hernan er einn almesti Lionel Messi aðdáandi sem fyrirfinnst. Hernan fékk hjartnæma kveðju frá landa sínum eftir að Argentína hrósaði sigri í Suður-Ameríkubikarnum.

Í dag er mjög auðvelt að komast yfir hina ýmsu tölfræði úr heimi knattspyrnunnar. Þá sérstaklega þegar kemur að leikmanni á borð við Lionel Messi. 

Don Hernan, verandi 100 ára gamall, er hins vegar ekki mikið fyrir að skoða veraldarvefinn en hann missir ekki af leik með Messi og fer sínar eigin leiðir til að halda utan um öll mörkin sem landi hans skorar.

Hann skrifar þau einfaldlega niður í bók.

Hernan er orðinn að hálfgerði goðsögn á samfélagsmiðlinum TikTok þökk sé barnabarni sínu. Fór það þannig að Messi fékk veður af Hernan og skrifum hans. Leikmaðurinn ákvað því að senda hinum 100 ára Hernan hjartnæm skilaboð og þakka fyrir stuðninginn.

„Sæll Hernan, saga þín barst mér til eyrna. Það er frábært að þú sért að halda utan um mörkin mín og sérstaklega hvernig þú gerir það. Þess vegna ákvað ég að þakka þér sérstaklega fyrir það,“ sagði Messi í myndbandi sem má sjá hér að neðan.

„Ég hef alltaf fylgst með þér og mun alltaf gera,“ sagði Don Hernan sem var greinilega djúpt snortinn yfir kveðjunni.


Tengdar fréttir

Di María nýtti tækifærið og steig út úr skugga Messi

Ángel Di María skoraði markið sem tryggði Argentínu 1-0 sigur á Brasilíu í úrslitum Suður-Ameríkubikarsins. Hann hefur nær alltaf leikið aukahlutverk í liðum sínum enda lítið annað hægt þegar Lionel Messi, Cristiano Ronaldo, Neymar og Kylian Mbappé eru samherjar manns.

Loksins vann Messi titil með Argentínu

Argentína vann Suður-Ameríkubikarinn í knattspyrnu með 1-0 sigri á Brasilíu í nótt. Er þetta fyrsti titill Lionel Messi með Argentínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×