Fótbolti

Leggur skóna aftur á hilluna eftir magnaðan feril

Sindri Sverrisson skrifar
Arjen Robben á Laugardalsvelli í undankeppni EM 2016, í leik sem reyndar telst tæplega til fjölmargra góðra minninga hans úr fótboltanum.
Arjen Robben á Laugardalsvelli í undankeppni EM 2016, í leik sem reyndar telst tæplega til fjölmargra góðra minninga hans úr fótboltanum. EPA/OLAF KRAAK

Hollenska knattspyrnugoðsögnin Arjen Robben hefur lagt skóna á hilluna. Þessi 37 ára gamli kantmaður lék sína síðustu leiki með liðinu sem hann hóf ferilinn með; Groningen í Hollandi.

Robben vann á sínum ferli meistaratitla í Hollandi, Englandi, Spáni og Þýskalandi auk þess að fá silfur- og bronsverðlaun með hollenska landsliðinu á HM.

Robben vann Meistaradeild Evrópu með Bayern München árið 2013 og átti sinn þátt í átta Þýskalandsmeistaratitlum félagsins.

Hann varð Spánarmeistari með Real Madrid árið 2008, Englandsmeistari með Chelsea árin 2005 og 2006, og Hollandsmeistari með PSV árið 2003. Við þetta bætast svo margir fleiri titlar.

Robben glímdi við meiðsli á síðustu leiktíð og lék aðeins sjö leiki fyrir Groningen en skoraði tvö mörk.

Í yfirlýsingu á Instagram segir hann það afar erfiða ákvörðun að hætta. Hann ætlaði upphaflega að hætta árið 2019, þegar dvölinni hjá Bayern lauk, en stóðst ekki mátið að spila aftur fyrir Groningen þar sem hann hóf ferilinn um aldamótin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×