Innlent

Bólu­setning með breyttu sniði í haust

Eiður Þór Árnason skrifar
Engir bólusetningadagar eru fram undan í Laugardaghöll.
Engir bólusetningadagar eru fram undan í Laugardaghöll. Vísir/vilhelm

Í gær fór fram síðasta fjöldabólusetningin í Laugardalshöll og hér eftir verður bólusetning á höfuðborgarsvæðinu með breyttu sniði.

Næstu vikur verður bólusett eftir þörfum á Suðurlandsbraut 34. Stendur fólki til boða að mæta þangað klukkan 14 alla virka daga til að fá bóluefni Janssen eða Pfizer/BioNTech.

Þetta á ekki við um tólf til fimmtán ára börn nema í sérstökum tilvikum, til dæmis ef fólk er að flytja erlendis eða börnin eru með áhættuþætti með tilliti til alvarlegra veikinda vegna Covid-19. Frá þessu er greint á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Í kringum 17. ágúst verður fólk boðað í síðustu miðlægu fjöldabólusetninguna þegar Pfizer/BioNTech endurbólusetning fer fram á Suðurlandsbraut.

Fjallað var breytingarnar í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. 

Mælir ekki með því að hraust börn séu bólusett að svo stöddu

Í haust er líklegt að fólk geti pantað bólusetningu á sinni heilsugæslu og eru allar líkur á því að Pfizer/BioNTech og Janssen verði þar í boði.

Foreldrar munu geta óskað eftir bólusetningu tólf til fimmtán ára barna sinna eftir sumarleyfi heilsugæslu en nánari upplýsingar verða veittar um fyrirkomulagið síðar.

Sóttvarnalæknir mælir ekki með almennum bólusetningum hraustra barna 12-15 ára við Covid-19 að svo stöddu en foreldrar munu geta óskað eftir bólusetningu í haust. Mælt er með að börn með áhættuþætti séu bólusett.

5.560 einstaklingar voru bólusettir á landsvísu í gær og hafa 90,2 prósent íbúa á aldrinum 16 ára og eldri nú fengið minnst einn skammt. 85,3 prósent eru nú fullbólusettir.


Tengdar fréttir

Langþráð frí eftir „vertíð“ í bólusetningum

Gleði og tilhlökkun var einkennandi hjá starfsfólki í Laugardalshöll sem stóð sína síðustu vakt þar í dag – að öllu óbreyttu. Fjöldabólusetningum er nú lokið og þó bólusetningum verði framhaldið þá verða þær með breyttu sniði í haust.

Verða með „björgunar­línu“ í bólu­setningu meðan á fríinu stendur

Búist er við um 1.700 manns í endurbólusetningu með bóluefni Moderna í Laugardalshöll í dag, síðasta bólusetningardaginn fyrir sumarfrí Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þá hafa 2.000 manns verið boðaðir í bólusetningu með AstraZeneca, en búist er við einhverjum afföllum úr þeim hópi. Þrátt fyrir frí verður ekki ómögulegt að fá bólusetningu á höfuðborgarsvæðinu í sumar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.