Fótbolti

„Hatrið mun aldrei sigra“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jadon Sancho eftir að honum brást bogalistin á vítapunktinum í vítakeppninni í úrslitaleik EM.
Jadon Sancho eftir að honum brást bogalistin á vítapunktinum í vítakeppninni í úrslitaleik EM. getty/Eddie Keogh

Jadon Sancho segir að kynþáttafordómarnir sem hann varð fyrir eftir úrslitaleik EM hafi ekki komið sér á óvart. Hann segir þó að hatrið muni aldrei sigra.

Í fyrstu færslu sinni á samfélagsmiðlum eftir úrslitaleikinn segist Sancho hafa brugðist samherjum sínum, þjálfurum og stuðningsmönnum enska landsliðsins þegar hann klúðraði sinni spyrnu í vítakeppninni í úrslitaleiknum gegn Ítalíu.

„Ég vil biðja alla samherja mína, þjálfarateymið og síðast en ekki síst stuðningsmennina afsökunar á að hafa brugðist þeim. Þetta er langversta tilfinning sem ég hef upplifað á ferlinum,“ skrifaði Sancho á Twitter.

Hann segist jafnan vera öruggur á vítapunktinum og haft verið fullur sjálfstrausts og tilbúinn að taka vítið í úrslitaleiknum en það hafi bara ekki ratað rétta leið.

Sancho segist hafa notið síðasta mánaðar með enska landsliðinu til hins ítrasta og að samheldnin í hópnum sé engu lík.

Sem fyrr sagði urðu ensku leikmennirnir sem klikkuðu í vítakeppninni, Sancho, Marcus Rashford og Bukayo Saka, fyrir kynþáttaníði eftir úrslitaleikinn. Sancho segir að það hafi því miður ekki komið á óvart og samfélagið verði að gera betur í baráttunni gegn rasisma.

„Ég ætla ekki að láta eins og ég hafi ekki séð níðið sem við urðum fyrir en því miður er það ekkert nýtt. Við sem samfélag verðum að gera betur og láta þá seku bera ábyrgð. Hatrið mun aldrei sigra. Til allra þeirra ungmenna sem hafa orðið fyrir svipuðu níði, berið höfuðið hátt og haldið áfram að elta drauminn,“ skrifaði Sancho.

„Ég er stoltur af þessu enska liði og hvernig við höfum sameinað þjóðina eftir erfiða átján mánuði. Eins mikið og okkur langaði til að vinna þetta mót munum við byggja á þessu og læra af reynslunni.“

Sancho þakkaði svo fyrir öll jákvæðu skilaboðin sem honum hafa borist og segir að þau trompi neikvæðu og meiðandi athugasemdirnar.

Sancho, sem er 21 árs, verður væntanlega kynntur sem leikmaður Manchester United á næstu dögum, eftir að hann hefur staðist læknisskoðun hjá félaginu. Hann kemur til United frá Borussia Dortmund.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.