Fótbolti

Barnaþjálfari handtekinn fyrir rasísk ummæli í garð Rashfords

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fjöldi fólks safnaðist saman við veggmynd af Marcus Rashford í Manchester í gær.
Fjöldi fólks safnaðist saman við veggmynd af Marcus Rashford í Manchester í gær. getty/Danny Lawson

Fimmtugur yngri flokka þjálfari var handtekinn fyrir rasísk ummæli í garð Marcus Rashford á Twitter eftir úrslitaleik EM.

Rashford var einn þriggja leikmanna Englands sem klikkaði á sinni spyrnu í vítakeppninni í úrslitaleiknum. Ítalía vann vítakeppnina, 3-2, en staðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var 1-1.

Eftir leikinn bárust þremenningunum, Rashford, Jadon Sancho og Bukayo Saka, fjölmörg rasísk skilaboð á samfélagsmiðlum.

Meðal þeirra sem úthúðaði Rashford eftir leikinn var Nick Scott, sem starfar við fótboltaþjálfun barna. Hann skrifaði á Twitter að það ætti að brenna MBE-orðuna sem „loddarinn“ Rashford fékk fyrir baráttu sína gegn fátækt og hann ætti fara aftur til síns eigin lands.

Scott var handtekinn vegna tístsins en síðan sleppt úr haldi. Rannsókn málsins stendur þó enn yfir. Scott neitar sök og segir að Twitter-aðgangur sinn hafi verið hakkaður.

Eftir úrslitaleikinn voru skemmdarverk unnin á veggmynd af Rashford í Manchester. Það hefur nú verið lagað með skilaboðum til stuðnings framherjanum.

Rashford er á leið í aðgerð á öxl og gæti misst af fyrstu tveimur mánuðum næsta tímabils.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.