Erlent

Með hiksta í rúma tíu daga og kominn á sjúkrahús

Samúel Karl Ólason skrifar
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu.
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu. AP/Eraldo Peres

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hefur verið lagður inn á sjúkrahús. Hann er sagður finna til í maganum eftir að hafa verið með hiksta í meira en í tíu dag. Hann var lagður inn á hersjúkrahús í Brasilíu, höfuðborg Brasilíu, og á að vera undir eftirliti lækna í minnst tvo sólarhringa.

Hinn 66 ára gamli Bolsonaro er sagður vera hress í yfirlýsingu frá forsetaembættinu sem vitnað er í í frétt Guardian.

Vitnað er í brasilískan blaðamann sem segir Bolsonaro hafa verið með harðlífi. Þá ku heilsa forsetans hafa verið mikið milli tannanna á fólki í Brasilíu eftir að Bolsonaro virtist eiga erfitt með að tala í nýlegu viðtali.

Bolsonaro er einnig sagður hafa yfirgefið matarboð í síðustu viku vegna þess að honum hafi liðið illa. Í nýlegri færslu á samfélagsmiðlum sagði Bolsonaro að hiksta hans mætti rekja til vandræða með lyf sem hann fékk eftir að hann fór í tannaðgerð í síðasta mánuði.

Vinsældir forsetans hafa hrapað á undanförnum vikum og hefur Guardian eftir greinendum að fólk sé reitt yfir meðhöndlun hans á faraldri nýju kórónuveirunnar, sem veldur Covid-19. Í Brasilíu hafa minnst 535 þúsund manns dáið vegna Covid-19, svo vitað sé.

Bolsonaro, sem sjálfur hefur smitast af Covid19, hefur ítrekað gert lítið úr faraldrinum og líkt honum við flensu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.