Íslenski boltinn

Dramatískt jafntefli í Hafnarfjarðarslagnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
FH-ingar þurftu að sætta sig við jafntefli í kvöld.
FH-ingar þurftu að sætta sig við jafntefli í kvöld. Vísir/Daníel

FH tók á móti Haukum í nágrannaslag Lengjudeildar kvenna í kvöld. Lokatölur 1-1 þar sem að jöfnunarmarkið kom á annari mínútu uppbótartíma.

Það voru FH-ingar sem voru sterkari aðilinn framan af leik og þær uppskáru loksins á 38.mínútu þegar Elín Björg Norðfjörð Símonardóttir slapp ein í gegn og renndi boltanum framhjá Emily Armstrong í marki Hauka.

Staðan var því 1-0, heimakonum í vil, þegar flautað var til hálfleiks.

Seinni hálfleikur var nokkuð rólegri en sá fyrri, og það var ekki fyrr en alveg undir lokin sem Haukakonur fóru að ógna marki FH-inga almennilega.

Þegar rétt tæpar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma tók Harpa Karen Antonsdóttir aukaspyrnu fyrir gestina. Fyrirgjöf hennar datt fyrir Hildi Karítas Gunnarsdóttir sem jafnaði metin.

Haukakonur voru ansi nálægt því að stela sigrinum tveim mínútum seinna, en skot Þóreyjar Bjarkar Eyþórsdóttur sigldi rétt framhjá.

Niðurstaðan því 1-1 jafntefli og FH-ingum mistókst að jafna KR að stigum á toppi deildarinnar. FH-ingar eru með 20 stig í öðru sæti, en Haukar með 12 í því fimmta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×