Fótbolti

Einn af bestu mark­vörðum EM í sam­keppni við Ögmund

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tomáš Vaclík hefur samið við Olympiacos.
Tomáš Vaclík hefur samið við Olympiacos. Angel Martinez/Getty Images

Grikklandsmeistarar Olympiacos hafa samið við tékkneska markvörðinn Tomáš Vaclík. Hann á að fylla skarð José Sá sem er á leið til enska félagsins Wolves. Vaclík stóð vaktina í liði Tékklands á Evrópumótinu í knattspyrnu sem lauk fyrir skömmu.

Vísir velti því upp fyrir skömmu hvort Ögmundur yrði aðalmarkvörður Olympiacos er Sá færi til Wolves í kjölfar vistaskipta Rui Patrico sem er á leið til Rómarborgar. 

Svo virðist ekki vera fyrst Grikklandsmeistararnir hafa ákveðið að semja við hinn 32 ára gamla Vaclík. Hann var frábær á EM er Tékkland fór alla leið í 8-liða úrslit keppninnar.  Þar beið Tékkland lægri hlut gegn Dönum í hörkuleik.

Markvörðurinn hefur leikið með Vítkovice, Viktoria Žižkov, Sparta Prag, Basel og Sevilla á ferli sínum ásamt því að leika 42 landsleiki fyrir A-landslið Tékka. 

Hann semur við Olympiacos til næstu tveggja ára og mun því veita Ögmundi Kristinssyni verðuga samkeppni um stöðu aðalmarkvarðar hjá félaginu.

Ögmundur samdi við Olympiacos síðasta sumar eftir að hafa leikið með gríska liðinu Larissa frá 2018 til 2020. Lék hann alls fimm leiki með grísku meisturunum á síðustu leiktíð.


Tengdar fréttir

Sala Pat­ricio til Rómar gæti opnað dyrnar fyrir Ögmund

Markvörðurinn Rui Patricio er á leið til Roma í ítölsku úrvalsdeildinni. Gæti það leitt af sér kapal sem leiðir til þess að Ögmundur Kristinsson gæti fengið möguleika í marki Grikklandsmeistara Olympiacos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×