Erlent

Segjast hafa ætlað að handtaka forsetann

Samúel Karl Ólason skrifar
Þúsundir hafa þurft að flýja heimili sín í Port-au-Prince vegna átaka glæpagengja.
Þúsundir hafa þurft að flýja heimili sín í Port-au-Prince vegna átaka glæpagengja. AP/Joseph Odelyn

Glæpagengi á Haítí og ofbeldi vegna baráttu þeirra um yfirráðasvæði hefur valdið miklum usla undanfarið. Þúsundir hafa þurft af flýja heimili sín vegna átaka og glæpamenn fara ránshendi um heimili og fyrirtæki.

Ofbeldið er sagt koma verulega niður á viðbrögðum við morði Jovenel Moise, forseta Haítí. Árásarmenn sem búið er að yfirheyra eru sagðir hafa haldið því fram að markmið þeirra hafi verið að handtaka forsetann en þeir hafi komið að honum dánum.

AP fréttaveitan segir að valdamiklir stjórnmálamenn og bandamenn þeirra hafi í gegnum árin fjármagnað glæpasamtök á Haítí. Nú óttast hins vegar íbúar landsins að þessir bakhjarlar hafi misst stjórn á glæpagengjunum sem eru orðin gífurlega valdamikil.

Skólum hefur verið lokað vegna ofbeldisins og hefur það sömuleiðis komið niður á baráttunni gegn Covid-19. Þá stálu glæpagengi nýverið þúsundum poka af sykri, hrísgrjónum og hveiti, auk þess sem þeir hafa farið ránshendi um heimili og brennt hús í Port-au-Prince, höfuðborg Haítí.

Þúsundir hafa þurft að leita skjóls í kirkjum, á íþróttavöllum og í íþróttahúsum.

Sérfræðingar sem ræddu við blaðamenn fréttaveitunnar segja ofbeldisástandið á Haítí ekki hafa verið svo sæmt í tvo áratugi eða síðan Sameinuðu þjóðirnar sendu friðargæsluliða til Haítí árið 2004.

Berjast um æðstu embættin

Ofan á þessi vandræði bætast miklar deilur um það hver eigi í raun að vera við stýrið á Haítí. Forsetinn er dáinn og forseti Hæstaréttar Haítí, sem hefði samkvæmt stjórnarskrá átt að taka við af honum dó nýverið vegna Covid-19.Sá sem virðist nú fara með völd heitir Claude Joshep. Hann er utanríkisráðherra en hafði verið starfandi forsætisráðherra í tvo og hálfan mánuð.

Umferðaröngþveiti í Port-au-Prince.AP/Matias Delacroix

Daginn sem hann var myrtur skipaði Moise nýjan forsætisráðherra. Sá heitir Ariel Henry og átti hans helsta verkefni að snúast um það að halda kosningar. Þær átti að halda í fyrra en var frestað.

Til stóð að halda kosningar í september en óljóst er hvort það sé yfir höfuð hægt. Bæði vegna ofbeldis og vegna þess hve veikburða og viðkvæmar opinberar stofnanir Haítí eru orðnar.

Henry hefur lýst því yfir að hann sé réttmætur forsætisráðherra en Joshep stýrir þó landinu, ef svo má segja, með stuðningi lögreglunnar og hersins.

Moise hafði rekið flesta þingmenn Haítí á kjörtímabili sínu en einungis tíu öldungadeildarþingmenn af þrjátíu voru eftir í embætti. Átta þingmenn af þessum tíu hafa kallað eftir því að Josehp láti af völdum. Þingmennirnir segja að þar sem þeir séu í raun einu kjörnu fulltrúar Haítí séu þeir þeir einu sem geti tryggt fullveldi ríkisins, samkvæmt frétt New York Times.

Þingmennirnir segja að Joseph Lambert, forseti öldungadeildarinnar, eigi að taka tímabundið við embætti forseta og Henry eigi að sitja í embætti forsætisráðherra.

Glæpagengi eru mjög umsvifamikil á Haítí.AP/Dieu Nalio Chery

Segjast hafa átt að handtaka forsetann

Lögreglan á Haítí segir hóp þungvopnaðra málaliða, sem flestir voru frá Kólumbíu, hafa ráðist á heimili forsetans fyrr í vikunin og myrt. Alls eru 26 sagðir hafa verið frá Kólumbíu og tveir voru bandarískir ríkisborgarar frá Haítí.

Margir þeirra hafa verið handteknir. Við yfirheyrslur hafa þeir sagt að þeir hafi verið ráðnir til að handtaka Moise. Þetta hafa fjölmiðlar vestanhafs, eins og Miami Herald (áskriftarvefur) eftir heimildarmönnum sínum.

Í frétt Reuters segir að mennirnir hafi sagt lögregluþjónum að handtaka ætti forsetann á heimili hans og flytja hann í forsetahöll Haítí. Hann hafi hins vegar þegar verið látinn þegar þeir komu að honum.

Myndir af meintu líki Moise hafa verið í dreifingu á samfélagsmiðlum. Þær hafa ekki verið sannreyndar enn en sýna þó lík sem var skotið margsinnis og sömuleiðis að bein forsetans hafi verið brotin.

Fjölmiðlar ytra hafa sagt frá því að útlit sé fyrir að Moise hafi verið pyntaður áður en hann var skotinn til bana.


Tengdar fréttir

Handtóku banamenn forsetans í sendiráði Taívan

Lögregluyfirvöld á Haíti segjast hafa handtekið sautján málaliða sem tóku þátt í árásinni á forseta landsins á miðvikudag. Forsetinn, Jovenel Moise var skotinn til bana þegar hópur þungvopnaðra manna réðst á heimili hans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×