Innlent

Hafna því al­farið að hafa beitt hælis­leit­endurna of­beldi eða ó­hóf­legu valdi

Eiður Þór Árnason skrifar
Sjónarvottur sem stóð fyrir utan móttöku Útlendingastofnunar í Hafnarfirði náði ljósmyndum af handtökunni.
Sjónarvottur sem stóð fyrir utan móttöku Útlendingastofnunar í Hafnarfirði náði ljósmyndum af handtökunni.

Embætti ríkislögreglustjóra vísar á bug ásökunum um að lögregla hafi beitt ofbeldi við handtöku á tveimur hælisleitendum líkt og haldið hefur verið fram af fólki í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá embættinu en fram að þessu hefur lögreglan alls ekki viljað tjá sig efnislega um það hvað fór fram í húsakynnum Útlendingastofnunar á þriðjudagsmorgun. Palestínsku mönnunum hefur nú báðum verið vísað úr landi og sendir aftur til Grikklands.

Sjónarvottar saka lögreglumenn um að hafa beitt mennina ofbeldi og meðal annars lamið þá, notað rafbyssu og sprautað þá niður. Embætti ríkislögreglustjóra sagði í gær að lögregla notist ekki við rafbyssur undir neinum kringumstæðum.

Ekki beitt óhóflegri valdbeitingu miðað við aðstæður

„Farið hefur fram frumskoðun á myndefni af atvikinu af hálfu embættisins og bendir hún ekki til að um óþarfa eða óhóflega valdbeitingu hafi verið að ræða, miðað við þær aðstæður sem sköpuðust á vettvangi,“ segir í nýrri yfirlýsingu lögreglu.

Þar er jafnframt ítrekað að lögregla grípi aðeins til valdbeitingar þegar brýna nauðsyn krefji. Ákvörðun um slíkt sé ávallt tekin samkvæmt mati stjórnanda á vettvangi, meðal annars með það að markmiði að tryggja öryggi hins handtekna eða annarra.

Fluttur á bráðadeild eftir handtökuna

„Í ljósi fjölmargra fyrirspurna þá getur embættið staðfest að einstaklingarnir sem um ræðir eru farnir af landi brott í samræmi við ákvörðun viðeigandi yfirvalda um frávísun þeirra.“

Vísir greindi frá því fyrr í dag að annar Palestínu­mannanna hafi verið fluttur á bráða­deild Land­spítala með á­verka eftir handtökuna, meðal annars á höfði. Þá virðist hann hafa verið sprautaður niður á einhverjum tímapunkti en hann fullyrðir sjálfur að hann hafi verið sprautaður niður oftar en einu sinni af ein­hverjum í gulu vesti. 

Fram kom í tilkynningu sem embætti ríkislögreglustjóra sendi út í gær að lögregla sprauti aldrei einstaklinga, heldur sé slíkt ávallt í höndum heilbrigðisstarfsmanna sem taki slíka ákvörðun sjálfstætt í ljósi aðstæðna hverju sinni.

Að sögn sjónarvotta voru minnst fjórir merktir lög­reglu­bílar, sjúkra­bíll og slökkvi­liðs­bíll á vettvangi á þriðjudag. Þá hafi sér­sveitin mætt á ó­merktum bílum. Fram hefur komið að málið verði borið undir nefnd um eftirlit með lögreglu.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Fluttur á bráða­­deild með á­verka eftir hand­tökuna

Annar Palestínu­mannanna sem lög­regla hand­tók í hús­næði Út­lendinga­stofnunar á þriðju­dags­morgun var fluttur á bráða­deild Land­spítala með á­verka eftir handtökuna, meðal annars á höfði. Hann fullyrðir sjálfur að hann hafi margoft verið sprautaður niður án samþykkis. 

Segja lög­reglu hafa beitt raf­byssu og eytt mynd­böndum sjónar­votta

Tveir palestínskir flótta­menn voru hand­teknir í mót­töku Út­lendinga­stofnunar í gær eftir að þeir höfðu verið boðaðir þangað til að sækja bólu­setningar­vott­orð sín. Þeir voru fluttir af staðnum með valdi og sendir úr landi í morgun. Sjónar­vottur sakar lög­reglu um að hafa tekið af sér símann og eytt mynd­bandi sem var tekið upp.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×