Fótbolti

UEFA kærir Englendinga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kasper Schmeichel ræðir málin við hollenska dómarann Danny Makkelie í undanúrslitaleiknum á Wembley í gær.
Kasper Schmeichel ræðir málin við hollenska dómarann Danny Makkelie í undanúrslitaleiknum á Wembley í gær. EPA-EFE/Andy Rain

Enska landsliðið er komið í úrslitaleik á stórmóti í fyrsta sinn í 55 ár en það lítur út fyrir að hegðun stuðningsmanna liðsins á Wembley í gær kalli á aðgerðir og refsingar frá yfirvöldum evrópska fótboltans.

England vann 2-1 sigur á Danmörku í undanúrslitaleiknum og mætir Ítölum á sunnudagskvöldið. Báðir leikirnir fara fram á heimavelli enska landsliðsins, Wembley, og fyrir framan tugþúsundir stuðningsmanna enska liðsins.

Það voru einhverjir svartir sauðir meðal áhorfenda í gær og hefur eitt atvik vakið hneykslan hjá mörgum. UEFA, Knattspyrnusamband Evrópu, ákvað í dag að taka á því máli.

UEFA hefur ákveðið að kæra enska knattspyrnusambandið fyrir notkun leysigeisla á leiknum í gær.

UEFA sendi frá sér fréttatilkynningu í dag í kjölfar þess að fjölmiðlar voru farnir að fjalla um leysigeislann sem var beint að höfði Kaspers Schmeichel, markvarðar danska landsliðsins.

Atvikið gerðist í umdeildri vítaspyrnu sem Englendingar fengu í framlengingunni. Kasper Schmeichel varði vítið en Harry Kane skoraði úr frákastinu.

Myndir sýna greinilega þegar leysigeisla er beint framan í andlit Schmeichel.

Englendingar eiga líka á hættu að vera refsað fyrir aðra slæma hegðun áhorfenda á leiknum eins og þegar þeir bauluðu á þjóðsögn Dana sem og fyrir ólöglega notkun blysa.

Samkvæmt heimildum The Athletic þá mun enska sambandið væntanlega fá átta þúsund evru sekt fyrir leysigeislann og fimm hundruð evru sekt fyrir hvert blys eða flugeld.

Átta þúsund evrur eru meira en 1,1 milljón íslenskra króna og 500 evrur eru rúmlega 73 þúsund íslenskar krónur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.