Innlent

Börn geta smitast í útlöndum: Mælir gegn fjölskylduferðum með óbólusett börn

Snorri Másson skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Sóttvarnalæknir mælir með því að Íslendingar fari ekki óbólusettir til útlanda og gilda þau tilmæli einnig um börn. Þar með er í raun mælt gegn fjölskylduferðum með óbólusett börn.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir það ekki embættisins að banna svona ferðir, en að verið sé að höfða til fólks, eins og með margt í gegnum faraldurinn.

„Við getum ekki annað gert en mælt gegn því, við höfum engin tök á að banna fólki þetta. Það eru engin lög sem heimila okkur það. Þetta byggir því bara á samvinnu og leiðbeiningum og tilmælum til fólks,“ segir Þórólfur í samtali við Vísi.

„Veiran er enn að ganga og hefur mikla útbreiðslu víða erlendis og börn geta fengið í sig veiru og veikst. Í undantekningartilvikum geta þau veikst alvarlega. Svo geta þau smitað frá sér þótt minni líkur séu á því. Covid er ekki búið, það heldur áfram víða í heiminum þótt staðan sé góð hér.“

Lyfjastofnun Evrópu hefur heimilað bólusetningu 12-15 ára en bólusetning er ekki hafin á þessum hópi hér á landi, nema hjá þeim sem hafa undirliggjandi sjúkdóma. Almenn bólusetning innan þessa aldurshóps mun að líkindum fara fram innan heilsugæslunnar eða í skólum en ekki í Laugardalshöll.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×