Erlent

Forseti Haítí skotinn til bana á heimili sínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Jovenel Moise, forseti Haítí.
Jovenel Moise, forseti Haítí. Getty/Riccardo Savi

Jovenel Moïse, forseti Haítí, er sagður hafa verið myrtur í árás í nótt. Hópur vopnaðra manna er sagður hafa rutt sér leið inn á heimili hans í Port-au-Prince í nótt og skotið forsetann til bana og sært Martine Moise, eiginkonu hans, sem sé nú á sjúkrahúsi.

Ástand hennar liggur ekki fyrir.

Haítíski miðillinn Juno7, vísar í tilkynningu frá Claude Joseph, starfandi forsætisráðherra landsins, þar sem dauðsfall forsetans er tilkynnt.

Í þeirri tilkynningu segir að einhverjir árásarmannanna hafi talað spænsku og er árásin fordæmd harðlega. Joseph kallar eftir ró meðal íbúa Haítí og segir lögregluna og herinn vera með stjórn á ástandinu.

Moise, sem var 53 ára gamall, skipaði í gær nýjan mann í embætti forsætisráðherra en Joseph hefur verið starfandi forsætisráðherra í rúma tvo mánuði. Síðasti forsætisráðherra Haítí sat í embætti í minna en þrjá mánuði.

Sá nýji heitir Ariel Henry og er sjöundi forsætisráðherrann sem Moise skipaði frá því hann tók við völdum árið 2017. AFP fréttaveitan segir Joseph halda því fram að hann stjórni nú Haítí.

Blaðamaður Le Nouvelliste hefur eftir Josehp að forsetinn hafi verið myrtur af „sérsveitarmönnum“ með tengsl við erlend ríki.

Forsetinn er ekki óumdeildur og hefur verið sakaður um ólýðræðislega tilburði í ríki sem er ekki ókunnugt einræðisherrum. Lýðræði hefur lengi átt undir högg að sækja í Haítí.

Meðal annars hefur Moise reynt að staðfesta nýja stjórnarskrá Haítí og hefur sú vinna verið gagnrýnd af alþjóðasamfélaginu, samkvæmt frétt Al Jazeera. Meðal þeirra breytinga sem Moise vildi koma á var að ekki væri hægt að sækja forseta til saka fyrir meint brot á kjörtímabili hans.

Þá hefur Haíti orðið fyrir öldu ofbeldis og glæpa á undanförnum mánuðum.

Eins og bent er á í frétt France24 er Haítí eitt fátækasta ríkið í Ameríku. Moise hefur verið sakaður um að hunsa vandamál íbúa og ríkisins og er ekki sagður hafa notið mikils trausts þeirra.

Í febrúar hafði stjórnarandstaðan sagt að kjörtímabili Moise væri lokið. Hann sagði svo ekki vera og neitaði að stíga til hliðar. Hann sagðist eiga eitt ár inni, þar sem embætistöku hans hefði verið seinkað.

Þá kom til umfangsmikilla mótmæla í Haítí. Í kjölfar þeirra voru 23 handteknir og þar á meðal dómari og háttsettur lögreglumaður sem Moise sakaði um að hafa ætlað að myrða sig, samkvæmt frétt New York Times.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.