Innlent

Hrópaði að Bjarna í þing­­­sal: „Þetta var nú bara í hita leiksins“

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
þingsalur Bjarni Benediktsson alþingi
vísir

Fyrsti vara­for­seti Al­þingis var í dag truflaður í miðri kynningu sinni á næsta þing­manni í pontu með hrópum Loga Einars­sonar, formanns Sam­fylkingarinnar, að Bjarna Bene­dikts­syni, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, sem hafði þá ný­lokið svari sínu við ó­undir­búinni fyrir­spurn.

For­setinn varð að slá í þing­bjölluna og biðja Loga að hrópa ekki úr salnum: „For­seti biður þing­menn um að hafa ró í þing­salnum og vera ekki að skiptast á skoðunum hornanna á milli,“ sagði hann á meðan Guð­mundur Ingi Kristins­son, þing­maður Flokks fólksins, beið eftir að for­setinn gæti lokið kynningu sinni svo hann gæti stigið upp í pontu og borið fram fyrir­spurn sína.

Bjarni hafði verið að svara ó­undir­búinni fyrir­spurn frá sam­flokks­konu Loga, Odd­nýju G. Harðar­dóttur, sem spurði ráð­herrann hvort hann gæti svarað því hver á­vinningur al­mennings væri af því að er­lendir fjár­festar hefðu getað keypt hluti í Ís­lands­banka á undir­verði þegar ríkið seldi 35 prósent hlut í honum á dögunum.

„Virðu­legi for­seti. Þeir keppast nú við að út­skýra fyrir okkur að við hefðum selt banka á of lágu verði þeir sem sögðu að ekki væri hægt að selja bankann vegna þess að það myndi ekki fást nægi­lega hátt verð,“ svaraði Bjarni þá.

Hann sagði þá að ríkið hefði nú beitt markaðnum til þess að fá endan­legt verð á þann hlut sem ekki var seldur: „Og það kemur í ljós að við höfum lík­lega verið að van­meta þessa eign okkar þrátt fyrir að við höfum selt á markaði núna yfir bók­færðu verði ríkisins,“ sagði hann.

Hvers vegna er sömu aðferð ekki beitt á kvótann?

Það var þessi punktur Bjarna sem varð Loga til­efni til upp­hrópana, þó þær kæmu reyndar ekki fyrr en nokkru síðar, eftir að Bjarni hafði lokið annarri ræðu sinni.

Þegar Bjarni hafði þá stigið úr pontu og for­seti þingsins í miðjum klíðum að kynna næsta ræðu­mann heyrðist í Loga úr salnum:

„Notaðu þá sömu að­ferðir við að fá rétt markaðs­verð… við sjávar­út­veginn…“ segir hann en erfitt er að greina hluta setningarinnar fyrir nokkrum klið sem kom upp í þing­salnum. Atvikið má sjá í klippunni hér að neðan.

Í sam­tali við Vísi skýrir Logi mál sitt:

„Ég sagði við hann að það væri nú nær…, því að hann væri búinn að tala um að þetta hefði verið leið til að finna út raun­veru­legt markaðs­virði á Ís­lands­banka, af hverju þau notuðu ekki sömu að­ferð til að finna út rétt markaðs­verð á afla­heimildum?“ segir hann.

Út­boð á afla­heimildum sé meðal þess sem Sam­fylkingin hafi gjarnan talað fyrir, þegar verið væri að auka afla­heimildir eða fara í veiðar á nýjum tegundum.

„Þannig þetta var nú bara svona í hita leiksins,“ segir Logi en Bjarni hafði í ræðu sinni, áður en Logi tók að kalla á hann, sakað Sam­fylkinguna um sýndar­mennsku og sagt að flokkurinn vildi í raun ekki að neinn hlutur í bankanum yrði seldur.

Bjarni hafi farið rangt með staðreyndir

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.Vísir/Vilhelm

„Þið eruð að tala um það að þið viljið ein­fald­lega ekki að svona hlutir séu markaðs­settir, jafn­vel þó þið hafið á sínum tíma setið í ríkis­stjórn og boðað 30 prósent sölu á eignar­hlut ríkisins í Ís­lands­banka,“ sagði Bjarni.

„Að­ferða­fræðin sem notuð var í þessu máli, sölunni á eignar­hlut ríkisins í Ís­lands­banka, var teiknuð upp í ríkis­stjórnar­tíð Sam­fylkingarinnar.“

Logi segir að Sam­fylkingin hafi vissu­lega talað fyrir því að eðli­legt væri að ríkið losaði ein­hvern hlut sinn í bankanum en það yrði að vera gert á hentugum tíma þegar sem best verð fengist fyrir hann – ekki að hann yrði seldur á undir­verði.

Hann bendir þá á að Bjarni hafi farið með rangt mál í pontu; Sam­fylkingin hafi í ríkis­stjórnar­tíð sinni talað fyrir sölu á fimm prósenta hlut ríkisins í Ís­lands­banka, enda hafi ríkið á þeim tíma ekki átt stærri hlut og verið algjör minni­hluta­eig­andi í bankanum.


Tengdar fréttir

Verð á bréfum í Íslandsbanka hækka

Mikil veisla er í Kauphöllinni. Hlutabréf í bönkunum þremur, Íslandsbanka, Arion og Kviku, hafa hækkað verulega í morgun í fyrstu viðskiptum dagsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.