Erlent

Til­nefnir Löfven sem for­sætis­ráð­herra

Atli Ísleifsson skrifar
Stefan Löfven hefur gegnt embætti forsætisráðherra Svíþjóðar frá árinu 2014.
Stefan Löfven hefur gegnt embætti forsætisráðherra Svíþjóðar frá árinu 2014. AP

Andreas Norlén, forseti sænska þingsins, mun tilnefna Stefan Löfven sem forsætisráðherra landsins og mun þingið greiða atkvæði um tillöguna á miðvikudaginn.

Frá þessu segja sænskir fjölmiðlar en sameiginlegur blaðamannafundur Norléns og Löfvens hófst klukkan 12. 

Þar kom fram að Löfven hafi í hyggju að mynda nýja stjórn Jafnaðarmannaflokksins og Græningja líkt og átti einnig við um þá stjórn sem fór frá í síðasta mánuði - stjórn sem Miðflokkurinn og Frjálslyndir vörðu vantrausti. 

Löfven segist eftir viðræður síðustu daga að hann hafi nægan stuðning til að mynda nýja stjórn, en að málið verði lagt í dóm þings á miðvikudaginn. Valdið sé þingsins.

Annie Lööf, leiðtogi sænska Miðflokksins, sagði frá því í morgun að þingflokkur Miðflokksins myndi skila auðu í atkvæðagreiðslu þingsins um tillöguna um Löfven sem næsta forsætisráðherra. Nooshi Dadgostar,formaður Vinstriflokksins, tilkynnti sömuleiðis í gær að Vinstriflokkurinn muni greiða atkvæði með Löfven sem forsætisráðherra.

Í Svíþjóð er það þannig að forsætisráðherra þarf ekki að njóta stuðnings meirihluta þings, heldur þarf meirihluti þings einungis að greiða ekki atkvæði með vantrausti til að stjórn sé starfhæf.

Vantraust samþykkt í þarsíðustu viku

Fráfarandi stjórn Löfvens var einnig minnihlutastjórn Jafnaðarmannaflokksins og Græningja, sem Miðflokkurinn og Frjálslyndir vörðu vantrausti. Stjórnin var þó einnig háð því að Vinstriflokkurinn myndi verja hana vantrausti.

Vinstriflokkurinn ákvað þó að greiða atkvæði með vantrauststillögu Svíþjóðardemókrata á mánudaginn í þarsíðustu viku vegna ákvörðunar stjórnar Löfvens um að afnema leiguþak á nýju húsnæði.

Þingkosningar munu fara fram í Svíþjóð í september 2022, burtséð frá því hvort að niðurstaðan nú verði að boða verði til aukakosninga á næstu mánuðum þar sem ekki hefur tekist að mynda stjórn.

Fréttin hefur verið uppfærð


Tengdar fréttir

Mið­flokkurinn sagður ætla að sam­þykkja á­fram­haldandi stjórn Löfvens

Flokkstjórn sænska Miðflokksins er sögð reiðubúin að verja nýrri ríkisstjórn Stefans Löfven falli. Frá þessu greinir Svenska dagbladet (SvD) í morgun, en Löfven mun í dag tilkynna þingforsetanum Andreas Norlén hvort hann telji grundvöll fyrir því að mynda nýrri stjórn undir hans forsæti sem nyti stuðnings meirihluta þings.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.