Fótbolti

Wen­ger styður að halda HM á tveggja ára fresti

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Wenger vill halda HM á tveggja ára fresti.
Wenger vill halda HM á tveggja ára fresti. Valeriano Di Domenico/Getty Images

Arsène Wenger, fyrrum þjálfari enska knattspyrnufélagsins Arsenal, styður þá hugmynd að halda heimsmeistaramótið í knattspyrnu á tveggja ára fresti.

Samkvæmt íþróttavefnum The Athletic er Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, að skoða þann möguleika að halda HM á tveggja ára fresti í stað fjögurra eins og þekkist nú. 

„Fleiri leikir í útsláttarkeppni, færri leikir í undankeppni. Það er það sem stuðningsfólkið vill,“ er haft eftir Wenger í þýska íþróttamiðlinum Kicker.

Wenger vill fækka landsliðsgluggum yfir tímabilið þar sem hann telur þau hafa of mikil áhrif á leikmenn. Bendir hann á meiðsli Robert Lewandowski í vetur því til sönnunar. 

Í mars á þessu ári stakk Wenger upp á þeirri hugmynd að undankeppni fyrir EM og HM færi fram í október þar sem allur mánuðurinn yrði undirlagður af landsleikjum.

„Landsliðin geta hist í október, spilað sjö leiki í undankeppni þann mánuðinn og svo fer lokamótið fram í júní. Við viljum fækka leikjum, það er mikilvægt.“

Hugmyndin er að landslið myndu aðeins hafa leikmenn í 28 daga frekar en 50 eins og þekkist nú. Þá yrði leikjum í undankeppnum fækkað úr 10 í 7. Ekki er útskýrt af hverju um oddatölu er að ræða.

Wenger telur að þetta gæti orðið að veruleika eftir Evrópumótið 2024 en í frétt The Athletic um málið er ljóst að þessu yrði mótmælt harðlega. Reikna má með að flestir þjálfarar Evrópu séu á sama máli og Pep Guardiola, þjálfari Manchester City.

„Við ættum kannski að biðja UEFA og FIFA um að lengja árið. Við gætum kannski fengið 400 daga á ári,“ sagði Pep í apríl. Þá hafa deildarsamböndin einnig gagnrýnt hugmyndina og sagt hana óraunhæfa.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.