Enski boltinn

Leicester fær markahrók frá Sambíu

Sindri Sverrisson skrifar
Patson Daka er kominn í Leicester-treyjuna.
Patson Daka er kominn í Leicester-treyjuna. lcfc.co.uk

Leicester hefur gengið frá kaupum á Patson Daka, framherja Red Bull Salzburg, en kaupverðið er sagt nema 23 milljónum punda eða jafnvirði tæplega fjögurra milljarða króna.

Daka var ofarlega á óskalista Brendans Rodgers, knattspyrnustjóra Leicester, fyrir sumarið enda fór hann mikinn á síðustu leiktíð. Þessi 22 ára landsliðsmaður Sambíu skoraði alls 34 mörk í 42 leikjum fyrir Salzburg á síðustu leiktíð og varð markahæstur í austurrísku úrvalsdeildinni með 27 mörk í 28 leikjum.

Daka varð austurrískur meistari með Salzburg og kjörinn leikmaður ársins.

Daka kom til Salzburg árið 2017 frá uppeldisfélagi sínu Kafue Celtic. Hann gerði samning til fimm ára við Leicester.

„Ég hef fylgst með Leicester frá því að liðið vann ensku úrvalsdeildina. Mér finnst þetta fullkominn staður fyrir mig, enda er þetta lið sem berst um titla. Ég veit að þetta verður ekki auðvelt en ég tel mig tilbúinn til að takast á við þessa áskorun,“ sagði Daka.

Daka er ekki fyrsti leikmaðurinn sem fer frá Salzburg í ensku úrvalsdeildina. Liverpool sótti þangað þríeykið Sadio Mané, Naby Keita og Takumi Minamino.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×