Innlent

Segir Marek sitja heilan heilsu inni á geðdeild

Nadine Guðrún Yaghi skrifar

Lögmaður mannsins sem dæmdur var til að sæta öryggisvistun vegna brunans á Bræðraborgarstíg síðasta sumar segir hann sæta ómannúðlegri meðferð á réttargeðdeild. Sótt hefur verið um leyfi til að áfrýja dómi héraðsdóms til Landsréttar.

Þann 3. júní kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm þar sem Marek Moszczynski, pólskur maður á sjötugsaldri, var sýknaður af kröfu um refsingu fyrir að hafa orðið þremur að bana í bruna á Bræðraborgarstíg í júní í fyrra. Marek var metinn ósakhæfur og gert að sæta öryggisvistun.

„Við höfum sótt um leyfi til að áfrýja málinu til Landsréttar. Þar sem hann var ekki dæmdur til refsingar heldur á öryggisgeðdeild þá þarf að sækja um formlegt leyfi til að áfrýja málinu,“ segir Stefán Karl Kristjánsson, lögmaður Marek. 

Þeir hafi ekki verið sáttir með niðurstöðu héraðsdóms.

„Það eru atriði þarna í þessu sem við teljum að hafi ekki verið fullrannsökuð og rétt að fá frekara álit á og skoðun þeirra sem betur til þekkja, sérfræðinga.“

Stefán Karl Kristjánsson lögmaður hefur sótt um leyfi til að áfrýja málinu til Landsréttar.VÍSIR/SIGURJÓN

Nokkrum dögum fyrir daginn örlagaríka hafi Marek verið á spítala með magasár og tekið ákveðin lyf. Stefán segir að geðtruflanir séu meðal hugsanlegra aukaverkana af lyfjunum sem Marek hafði tekið á spítalanum. Þetta hafi ekki verið rannsakað sérstaklega undir rekstri málsins.

„Ef þetta var manía af völdum lyfja þá hefði það væntanlega þýtt að ástandið sem slíkt var ekki varanlegt heldur tímabundið og þá hefði hann ekki þurft að vistast á geðdeild,“ segir Stefán Karl. 

Marek fái hvorki meðferð né lyf

Marek dvaldi í fangelsinu á Hólmsheiði í um eitt ár þar til dómur féll og hefur verið á Kleppi síðan. „Og staðan er einfaldlega sú í dag að hann er ekki í neinni lyfjameðferð, hann er ekki í neinni meðferð, hann situr í rauninni bara heill heilsu inni á geðdeild og þetta er í mínum huga ekki neitt annað en ómannúðleg meðferð og bara fangelsisrefsing,“ segir Stefán Karl. 

„Það er algjörlega ljóst í mínum huga að þarna er maður sem var alvarlega veikur, veikindaástæðan sem hrjáði hann er ekki fyrir hendi lengur, hann er vistaður inni á sjúkrastofnun fyrir alvarlega veika einstaklinga án þess að honum sé veitt nein meðferð. Bara með því að segja þetta upphátt áttar maður sig á því hversu vitlaust þetta er,“ segir Stefán Karl. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×