Fótbolti

Messi fór á kostum er hann varð leikja­hæsti leik­maður í sögu Argentínu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það var gaman hjá Messi í nótt.
Það var gaman hjá Messi í nótt. EPA-EFE/Raul Martinez

Það eru fá met sem Lionel Messi á eftir að slá en hann náði þó einu er Argentína lagði Bólivíu 4-1 í Suður-Ameríkukeppninni. Hann lék þá sinn 148. landsleik á ferlinum og varð þar með leikjahæsti landsliðsmaður Argentínu frá upphafi.

Ekki nóg með það heldur skoraði hinn 34 ára gamli Messi tvö af fjórum mörkum Argentínu í leiknum ásamt því að leggja upp það fyrsta. Það skoraði Papu Gomez strax á sjöttu mínútu leiksins.

Messi kom Argentínu í 2-0 eftir rúman hálftíma með marki úr vítaspyrnu og gerði svo í raun út um leikinn skömmu fyrir leikhlé þegar Sergio Agüero lagði upp á landa sinn. Eitthvað sem við gætum séð meira af hjá Barcelona í vetur fari svo að Messi skrifi undir nýjan samning.

Erwin Saavedra minnkaði muninn fyrir heimamenn þegar klukkustund var liðin af leiknum en Lautaro Martinez gerði endanlega út um leikinn fimm mínútum síðar. Lokatölur 4-1 Argentínu í vil sem mætir nú Ekvador í 8-liða úrslitum.

Hinn leikur næturinnar var viðureign Úrúgvæ og Paragvæ. Fór það svo að heimamenn höfðu betur 1-0 þökk sé marki Edinson Cavani úr vítaspyrnu eftir rúmar tuttugu mínútur. Úrúgvæ er einnig komið í 8-liða úrslit og mætir þar Kólumbíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×