Innlent

Mikil­vægt að lög­regla svari fyrir vinnu­brögð í Ás­mundar­salar­málinu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Dr. Margrét Valdimarsdóttir, afbrotafræðingur og lektor í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri, segir málið geta rýrt traust til lögreglu.
Dr. Margrét Valdimarsdóttir, afbrotafræðingur og lektor í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri, segir málið geta rýrt traust til lögreglu. Vísir/Vilhelm

Lektor í lögreglufræðum segir mikilvægt að svarað verði fyrir það hvort og af hverju átt hafi verið við upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna sem voru á vettvangi í samkvæmi í Ásmundarsal á Þorláksmessu.

Nefnd um eftirlit með störf lögreglu telur að háttsemi tveggja lögreglumanna, sem komu að svokölluðu Ásmundarsalarmáli, þar sem fjármálaráðherra var viðstaddur Þorláksmessusamkvæmi hvar sóttvarnareglur voru sagðar brotnar, hafi verið ámælisverð.

Samkvæmt nefndinni var mikill dráttur á afhendingu upptaka úr búkmyndavélum lögreglumannanna til nefndarinnar. Þá virðist sem átt hafi verið við upptökurnar að hluta. Margrét Valdimarsdóttir, lektor í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri, segir málið geta rýrt traust til lögreglunnar.

„Ég veit ekki hvort að það sé eitthvað óeðlilegt þarna, hvernig þetta fór fram. En það verður að liggja fyrir vegna þess að öll þessi óvissa, getur lögregla átt við þessar upptökur úr búkmyndavélum, er einhver þriðji aðili sem á að halda utan um þetta? Þetta þarf bara að liggja fyrir,“ segir Margrét.

Þá telur nefndin að vísbendingar séu uppi um að fréttatilkynning sem lögreglan sendi frá sér á aðfangadagsmorgun hafi verið efnislega röng. Í tilkynningunni, sem berst fjölmiðlum daglega undir heitinu Dagbók lögreglu, kom fram að ráðherra í ríkisstjórn Íslands, sem reyndist síðan vera Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, hefði verið meðal gesta í fjörutíu til fimmtíu manna samkvæmi í sal í miðbænum kvöldið áður.

Margrét telur óheppilegt í hvaða farveg málið er nú komið og sú mikla óvissa sem skapast hefur í kjölfarið.

„Ég tel að það sé mjög mikilvægt að það sé svarað fyrir það núna, hvers vegna það vantaði, ekki bara fyrir það að það hafi mögulega verið átt við þessar upptökur. Það þarf að svara fyrir það hvers vegna dagbókarfærsla lögreglu var efnislega röng, hvers vegna það dróst að afhenda nefndinni þessi gögn, og svo einmitt af hverju það vantaði upptökur í gögnin eða hvort það hafi verið átt við þau.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.