Innlent

Ómaklegt að fullyrða að ekkert hafi verið gert enda fjárframlög sjaldan verið meiri

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir segir að sjaldan hafi verið aukið jafn hressilega í heilbrigðiskerfið og á þessu kjörtímabili.
Katrín Jakobsdóttir segir að sjaldan hafi verið aukið jafn hressilega í heilbrigðiskerfið og á þessu kjörtímabili. Vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það ómaklegt að fullyrða að ekkert hafi verið að gert innan heilbrigðiskerfisins, enda sé búið að stórauka fjárframlög til heilbrigðismála. Um þúsund læknar afhentu heilbrigðisráðherra nýverið áskorun um að bæta verulega stöðuna á Landspítalanum og heilbrigðiskerfinu öllu.

Læknar afhentu Svandísi Svavarsdóttur undirskriftalistann á miðvikudag en þar saka þeir stjórnvöld um langvarandi sinnuleysi innan heilbrigðiskerfisins. Katrín Jakobsdóttir var spurð út í málið í Sprengisandi í morgun, þar sem hún sgðist ekki geta tekið undir þær fullyrðingar að stjórnvöld hafi vanrækt heilbrigðiskerfið.

„Tölurnar tala sínu máli. Við erum auðvitað búin að stórauka framlög til heilbrigðismála sem var það sem við sögðumst ætla að gera, bæði í fjárfestingar – og þá er ég að vitna í nýbyggingu Landspítalans sem var sett af stað á þessu kjörtímabili og hefur verið beðið eftir. Þetta voru læknar meðal annars að ræða um, aðstæður á Landspítala, og við verðum auðvitað einhvern tímann að fara af stað í slíka framkvæmd,” segir Katrín. 

„Ég er líka að tala um fjölgun hjúkrunarrýma sem er auðvitað stórmál en líka í rekstur þar sem fjármunir hafa verið auknir og við erum að sjá bæði aukningu í krónutölu en líka sem hlutfall af landsframleiðslu.”

Katrín bendir á heilbrigðiskerfið sé viðvarandi verkefni og að það sé nú að koma út úr gríðarlegum álagstíma. Þá hafi til dæmis milljarði verið varið í geðheilbrigðismál á kjörtímabilinu, en að það se málaflokkur sem taki tíma að snúa við og breyta.

„En hins vegar er það ómaklegt að segja að ekkert hafi verið gert, því ég held að staðreyndin sé sú að sjaldan hefur verið aukið jafn hressilega í heilbrigðismál og á þessu kjörtímabili.”

Hún nefnir að heilsugæslan hafi verið stórefld, sem hafi verið liður í því að draga úr álagi á Landspítalanum, sem eigi að fást við alvarlegri tilfelli.

„Það er búið að vera gríðarlegt álag á kerfinu og það tekur tíma að ná breytingum.”



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×