Fótbolti

Fimm sem stálu fyrir­sögnunum í þriðju um­ferð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Emil Forsberg var frábær er Svíþjóð tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum EM.
Emil Forsberg var frábær er Svíþjóð tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum EM. Igor Russak/Getty Images

Riðlakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu er nú lokið. Hér að neðan má sjá hvaða fimm leikmenn stálu fyrirsögnunum er við komumst að því hvaða 16 lið komust upp úr riðlunum.

5. Steven Zuber [Sviss]

Þó Xerdan Shaqiri hafi skorað tvennu í 3-1 sigri Sviss á Tyrklandi og þannig séð til þess að liðið endaði með fjögur stig í 3. sæti A-riðils og þar með tryggt sér farseðil í 16-liða úrslit þá fær vinstri vængbakvörðurinn Zuber hrósið.

Ástæðan er einföld, þessi 29 ára gamli leikmaður Eintracht Frankfurt lagði upp öll þrjú mörk Sviss gegn Tyrklandi. Hann þarf að eiga aðra slíka frammistöðu í 16-liða úrslitum en þar bíða heimsmeistarar Frakka.

4. Martin Dúbravka [Slóvakía]

Dúbravka varði víti í 0-5 tapi gegn Spánverjum en hann mun aldrei á lífsleiðinni gleyma fyrsta marki leiksins. Það fer í sögubækurnar sem eitthvað alklaufalegasta mark sem markvörður hefur fengið á sig.

3. Mikkel Damsgaard [Danmörk]

Þessi tvítugi leikmaður kom Dönum á bragðið gegn Rússum í leik sem heimamenn URÐU að vinna til að eiga möguleika á að komast í 16-liða úrslitin.

Markið var einkar glæsilegt og með því varð hann um leið yngsti leikmaðurinn til að skora á EM í sumar sem og fyrsti leikmaðurinn fæddur á þessari öld til að skora á Evrópumóti karla í knattspyrnu.

Þá segir slúðrið að Barcelona sé að fylgjast með þessum unga og efnilega leikmanni sem spilar í dag með Sampdoria á Ítalíu.

2. Cristiano Ronaldo [Portúgal]

Skoraði bæði mörk Portúgals í 2-2 jafnteflinu gegn Frakklandi og er nú markahæsti leikmaður mótsins með fimm mörk. Þá er hann jafn Ali Daei frá Íran yfir markahæstu landsliðsmenn allra tíma með 109 mörk. 

Ótrúlegur markaskorari og ótrúlegur leikmaður, flóknara er það ekki.

1. Emil Forsberg / Dejan Kulusevski [Svíþjóð]

Potturinn og pannan í sóknarleik Svíþjóðar. Alexander Isak hefur fengið mikið lof fyrir leik sinn en það hinn ljóshærði Forsberg er ástæðan fyrir því að Svíþjóð er komið áfram. 

Hinn 29 ára gamli leikmaður spilar með RB Leipzig og er því í töluvert öðru hlutverki þar heldur en í hinu klassíska 4-4-2 leikkerfi Svía. Forsberg kann þó vel við sig hjá báðum liðum og sýndi sparihliðarnar er hann skoraði tvö fyrstu mörk Svía í 3-2 sigri á Póllandi. 

Þá er vert að minnast á Dejan Kulusevksi – leikmann Juventus – sem fékk kórónuveiruna skömmu fyrir mót. Hann hefur náð fullum bata og spilaði 35 mínútur gegn Póllandi. segja má að hann hafi nýtt þær ágætlega en hann lagði upp annað mark Svía sem og sigurmarkið á fjórðu mínútu uppbótartíma.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.