Erlent

Vígamenn á barnsaldri myrtu yfir 130 íbúa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Um 9.000 börn hafa þurft á neyðaraðstoð að halda í kjölfar árásarinnar á Solhan.
Um 9.000 börn hafa þurft á neyðaraðstoð að halda í kjölfar árásarinnar á Solhan.

Vígamennirnir sem myrtu fleiri en 130 í þorpinu Solhan í norðausturhluta Búrkína Fasó fyrr í þessum mánuði voru flestir börn á aldrinum 12 til 14 ára. Þetta segja stjórnvöld í landinu og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna.

Um var að ræða mannskæðustu árásina á svæðinu í mörg ár en vígamennirnir fóru um, skutu á íbúa og brenndu heimili þeirra. Stórir hlutar svæðisins eru undir stjórn vígahópa tengdum Íslamska ríkinu og Al-Kaída.

Forsvarsmenn UNICEF sögðust í yfirlýsingu fordæma að börn og ungmenni væru fengin til liðs við vopnaða hópa. Það fæli í sér alvarleg brot á mannréttindum barnanna.

Að sögn staðaryfirvalda í norðurhluta Búrkína Fasó hafa hryðjuverkasamtök á svæðinu misnotað börn með þessum hætti síðusta ár. 

Mikil átök eru í landinu og mikið um árásir vopnaðra hópa á hermenn og almenna borgara. Hundruðir hafa verið myrtir og um 1,2 milljónir eru á vergangi. 

Yfir 2.200 skólum hefur verið lokað, það er einum af hverjum tíu, sem talið er hafa haft áhrif á menntun um 300.000 barna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×