Innlent

Úti­loka ekki stofnun nýs flokks

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Benedikt Jóhannesson sagði sig nýlega úr framkvæmdastjórn Viðreisnar.
Benedikt Jóhannesson sagði sig nýlega úr framkvæmdastjórn Viðreisnar. Vísir/Daníel

Benedikt Jóhannesson, einn af stofnendum Viðreisnar, segir ótímabært að svara því hvort hann ætli sér að stofna klofningsflokk frá Viðreisn. Greint var frá því í dag að Benedikt hefði sagt sig úr framkvæmdastjórn flokksins en hann er fyrrverandi formaður og einn stofnenda hans.

Bæði Benedikt og Ingólfur Hjörleifsson, fyrrum frambjóðandi flokksins til þingkosninga, hafa gagnrýnt vinnubrögð framkvæmdastjórnarinnar og aðferðir við val á lista fyrir næstu þingkosningar.

Í dag var stofnaður Facebook-hópurinn C++ frelsi og frjálslynd hugsun!. C er listabókstafur Viðreisnar og gæti því einhver skilið nafn flokksins sem Viðreisn 2.0, uppfærða og betri.

Umræðuhópurinn umræddi er prívat og hugsaður fyrir þá sem vilja ræða frelsi og frjálslynda hugsun.skjáskot/facebook

Ekki búinn að ákveða framhaldið

Vísir spurði bæði Ingólf og Benedikt hvort þeir stæðu á bak við hópinn og gátu báðir staðfest að þeir væru í honum en Benedikt segist ekki hafa stofnað hann. Ingólfur svaraði því ekki en sagðist vera meðlimur ýmissa hópa á Facebook þar sem frelsi og frjálslyndi væru til umræðu.

Ertu að hugsa um að stofna nýjan flokk? var Benedikt þá spurður.

„Það er ekki ákveðið enn þá,“ svaraði hann.

Það er sem sagt alveg möguleiki á því?

„Það er ekki tímabært að segja neitt um það,“ svaraði hann þá.

Spurður hvort hann brenni fyrir því að halda áfram í stjórnmálum segist hann eiginlega ekki getað svarað þeirri spurningu. „Það er svo margt að gera í lífinu og ég uni mínu lífi ágætlega.“

Hann kveðst vera í fríi og að framhaldið verði að koma í ljós.

Benedikt er enn í stjórn Viðreisnar. Kann hann enn vel við sig þar þrátt fyrir að hafa sagt sig úr framkvæmdastjórninni? „Ég er í stjórn Viðreisnar. Þar er margt gott fólk og fólk upp til hópa í Viðreisn er bara mjög gott fólk.“

Hann segir samstarfsgrunninn í framkvæmdastjórninni ekki hafa verið góðan en eins og greint hefur verið frá fer ekki sérlega vel á með Benedikt og hóp innan flokksins eftir uppstillingu á lista fyrir þingkosningarnar í haust. Benedikt sóttist eftir fyrsta sæti listans en var boðið það síðasta, heiðurssætið.

Margt í umræðunni

Ingólfur sóttist eftir 3.-5. sæti á lista Viðreisnar í Reykjavík suður.facebook/ingólfur hjörleifsson

Ingólfur, sem gagnrýndi framkomu fámenns hóps innan flokksins harðlega við mbl.is í gær segir marga innan flokksins nú hugsa næsta skref. Hann útilokar þar ekki stofnun nýs flokks:

„Ef það eru einhver samtöl um einhvern klofning þá kemur það bara í ljós, ef eitthvað svoleiðis kemur í ljós, þegar það verður tilkynnt,“ sagði hann.

„Það eru bara margir að hugsa sitt í sínu horni og það er margt í umræðunni. Það er erfitt að pinna eitthvað eitt út fyrir eitthvað annað.“


Tengdar fréttir

Benedikt vildi efsta sætið en var boðið það neðsta

Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda og fyrrverandi formaður Viðreisnar, mun ekki taka sæti á lista flokksins fyrir komandi Alþingiskosningar. Uppstillingarnefnd bauð Benedikt, sem sóttist eftir að leiða einhvern lista flokksins á suðvesturhorninu, að taka neðsta sæti.

Karlar í öðrum kjör­dæmum komu í veg fyrir odd­vita­sæti Bene­dikts

Meðlimur í uppstillingarnefnd Viðreisnar segir Benedikt Jóhannesson hafa látið það skýrt í ljós að hann vildi aðeins oddvitasæti á lista flokksins fyrir komandi kosningar. Flokkurinn hafi ekki getað orðið við því þar sem þrír karlar væru nú þegar oddvitar í öðrum kjördæmum.

Segir Við­reisn hafa brugðist þol­endum

Katrín Kristjana Hjartar­dóttir, einn af stofn­endum Við­reisnar, hefur sagt sig úr flokknum. Í sam­tali við Vísi segir hún á­stæðuna meðal annars þá að flokkurinn í Kópa­vogi hafi brugðist þol­endum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×