Innlent

Benedikt vildi efsta sætið en var boðið það neðsta

Eiður Þór Árnason skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, núverandi formaður Viðreisnar, tók við af Benedikt Jóhannessyni árið 2017. 
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, núverandi formaður Viðreisnar, tók við af Benedikt Jóhannessyni árið 2017.  Viðreisn

Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda og fyrrverandi formaður Viðreisnar, mun ekki taka sæti á lista flokksins fyrir komandi Alþingiskosningar. Uppstillingarnefnd bauð Benedikt, sem sóttist eftir að leiða einhvern lista flokksins á suðvesturhorninu, að taka neðsta sæti.

„Af augljósum ástæðum afþakkaði ég það,“ segir Benedikt í færslu á Facebook-síðu sinni og kveðst ósáttur með að ekki hafi verið efnt til prófkjörs. 

Benedikt hætti sem formaður Viðreisnar árið 2017 eftir að hann lét umdeild ummæli falla í kjölfar þess að ríkisstjórnarsamstarfi flokksins með Sjálfstæðisflokki og Bjartri framtíð var slitið. 

Hefur hann ekki átt sæti á Alþingi á yfirstandandi kjörtímabili og hugnaðist að snúa aftur í haust. Nú er ljóst að lítið verður af þeim fyrirætlunum en hann segist þó hvergi hættur í pólitík.

Í framboðstilkynningu sinni í september sagði Benedikt að Viðreisn hafi verið meginviðfangsefni hans frá árinu 2014. 

Muni ekki láta sitt eftir liggja

„Ég taldi að í flokki sem legði áherslu á opið og gagnsætt ferli væri eðlilegast að efna til prófkjörs, þegar margir sæktust eftir að leiða lista. Ég lagði það til. Reykjavíkurráð flokksins valdi annan kost og uppstillingarnefnd valin,“ skrifar Benedikt í Facebook-færslu sinni þar sem hann tilkynnir ákvörðun sína.

Segir hann að Þorsteinn Pálsson, formaður uppstillingarnefndar, hafi greint honum frá því síðastliðinn þriðjudag að það væri einróma niðurstaða nefndarinnar að bjóða formanninum fyrrverandi neðsta sætið.

„Þar með er útséð um að ég verði í framboði fyrir Viðreisn að þessu sinni, en ég held áfram í pólitík og styð nú sem fyrr grunnstefnu Viðreisnar, enda hygg ég að ég hafi skrifað megnið af henni. Sjaldan hefur verið brýnni þörf fyrir einbeitta, frjálslynda rödd í samfélaginu og ég mun ekki láta mitt eftir liggja,“ segir Benedikt að lokum.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.