Innlent

Segir Við­reisn hafa brugðist þol­endum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Katrín Kristjana Hjartardóttir, er einn af stofnendum Viðreisnar.
Katrín Kristjana Hjartardóttir, er einn af stofnendum Viðreisnar. aðsend

Katrín Kristjana Hjartar­dóttir, einn af stofn­endum Við­reisnar, hefur sagt sig úr flokknum. Í sam­tali við Vísi segir hún á­stæðuna meðal annars þá að flokkurinn í Kópa­vogi hafi brugðist þol­endum.

Hún til­kynnti um úr­sögn sína á um­ræðu­síðu fé­lags­manna Við­reisnar í dag. Þar rifjar hún upp sveitar­stjórnar­kosningarnar 2018 og lista­val Við­reisnar í Kópa­vogi. „Við val þar sá ég fljótt að sagan yrði endur­tekin með lista­val, en það sem varð, sem mun fylgja flokknum alla tíð, er hvernig hann brást þol­endum. Það eru von­brigði sem Við­reisn í Kópa­vogi verður að gera upp við sig sjálf.“

Vísir heyrði í Katrínu og spurði til hvers hún vísaði þarna. Hún segist þá eiga við fram­göngu Einars Arnar Þor­varðar­sonar, þegar hann starfaði sem fram­kvæmda­stjóri Hand­knatt­leiks­sam­bandsins (HSÍ), í máli hand­bolta­þjálfara sem var sakaður um kyn­ferðis­lega á­reitni gegn ungum stelpum sem hann þjálfaði. Einar Örn er nú bæjarfull­trúi Við­reisnar í Kópa­vogi og sat í öðru sæti listans í sveitar­stjórnar­kosningunum.

Ráðinn til annars félags innan HSÍ

Fyrr­verandi hand­bolta­konan Bryn­dís Bjarna­dóttir steig fram árið 2018 í við­tali hjá Vísi og greindi frá á­reitni þjálfarans og lé­legum við­brögðum HSÍ. Þegar hún var fimm­tán ára og spilaði með Val kom reyndur þjálfari inn í hópinn og fór að spjalla við hana í gegn um netið.

„Hann vildi vera vinur minn og vann sér inn traust hjá mér. Nema að þessi maður var 15 árum eldri en ég og þjálfari minn. Alltaf gekk þetta lengra og lengra þar til það var orðið kyn­ferðis­legt. Hann var farinn að segja mér hvað ég ætti að gera við sjálfa mig og hvernig hann myndi vilja að við værum saman kyn­ferðis­lega,“ sagði Bryn­dís.

Þegar önnur stelpa kvartaði síðan undan á­reitni þjálfarans steig Bryn­dís einnig fram. Þjálfarinn var þá rekinn frá Val en ráðinn til annars fé­lags sem keppti í mótum á vegum HSÍ þegar Einar var framkvæmdastjóri HSÍ.

Hringdi brjálaður eftir kvörtun

Nokkrum vikum eftir að málið komst í fjöl­miðla fór Við­reisn að stilla upp lista í Kópa­vogi. Katrín segist þá hafa látið for­mann Við­reisnar í Kópa­vogi á sínum tíma að hún gæti ekki stutt listann út af Einari. Þá hafi henni verið tjáð að mál þjálfarans ætti ekki að hafa nein á­hrif á að Einar væri í for­svari fyrir flokkinn.

„Við vorum að reyna að stað­festa okkur sem jafn­réttis­flokk og berjast um jafn­launa­vottun fyrir kvenna­stéttir en svo var verið að senda þessi skila­boð uppi í Kópa­vogi.“

Hún hafi þá labbað út úr fé­laginu í Kópa­vogi. „Í kjöl­farið hringir Einar í mig og eys yfir mig að ég sé að skemma mann­orðið hans og kalla hann nauðgara – sem ég gerði aldrei og geri ekki. En hann tók ömur­legar á­kvarðanir í þessu máli og gekkst aldrei við þeim. Mér fannst þetta bara sýna hver hans innri maður var.“

Katrín segist þrátt fyrir þetta allt styðja Við­reisn á lands­vísu. Á­kvörðun upp­stillinga­nefndar flokksins í Kraganum fyrir komandi Al­þingis­kosningar þegar Bene­dikt Jóhannes­syni, fyrsta for­manni flokksins, var boðið neðsta sæti þegar hann sóttist eftir því efsta, hafi einnig haft á­hrif á Katrínu.

„Bene­dikt er svo of­boðs­lega flottur og vald­eflandi fyrir ungt fólk og ungar konur í stjórn­málum. Það hafði einnig á­hrif á á­kvörðun mína um að segja mig úr flokknum. En ég fer ekki í neinum ill­indum; flokkurinn er með ó­trú­lega flotta hluti í gangi og það er margt flott fólk þarna. Ég hef ekkert út á flokkinn að setja heldur bara það hvernig á­kveðin mál hafa at­vikast.“


Tengdar fréttir

Benedikt vildi efsta sætið en var boðið það neðsta

Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda og fyrrverandi formaður Viðreisnar, mun ekki taka sæti á lista flokksins fyrir komandi Alþingiskosningar. Uppstillingarnefnd bauð Benedikt, sem sóttist eftir að leiða einhvern lista flokksins á suðvesturhorninu, að taka neðsta sæti.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.