Innlent

Skipstjóri sviptur skipstjórnarréttindum vegna siglingar undir áhrifum fíkniefna

Árni Sæberg skrifar
Skipstjórinn stýrði skipinu meðal annars inn í Sauðárkrókshöfn undir áhrifum kannabisefna og amfetamínskyldra lyfja.
Skipstjórinn stýrði skipinu meðal annars inn í Sauðárkrókshöfn undir áhrifum kannabisefna og amfetamínskyldra lyfja. Vísir/Vilhelm

Landsréttur staðfesti í dag sakfellingardóm yfir skipstjóra sem gerðist sekur um að stýra fiskiskipi undir áhrifum tetrahýdrókannabínóls og metýlfenídats.

Skipstjóranum var gefið að sök brot á siglingalögum með því að hafa, síðdegis þriðjudaginn 13. nóvember 2018, sem skipstjóri fiskiskips siglt skipinu um Skagafjörð og lagt því við bryggju í Sauðárkrókshöfn, óhæfur til að sinna skipstjórninni á fullnægjandi hátt vegna áhrifa tetrahýdrókannabínóls og metýlfenídats. Fyrrnefnda efnið er virka efnið í kannabis og hið síðarnefnda er örvandi lyf skylt amfetamíni.

Skipstjórinn bar fyrir sig við meðferð málsins að hann hafi ekki verið við skipstjórn í umræddri veiðiferð. Yfirstýrimaður hafi stýrt skipinu undir handleiðslu hans enda stóð til að yfirstýrimaðurinn leysti skipstórann af tímabundið. 

Landsréttur gaf lítið fyrir útskýringar mannsins og lagði til grundvallar að hann hafi verið skipstjóri á fiskiskipinu þegar því var siglt um Skagafjörð og bar hann sem slíkur ábyrgð á stjórn þess.

Refsing mannsins var ákveðin 380 þúsund króna sekt sem greiðist í ríkissjóð og svipting skipstjórnarréttinda í þrjá mánuði. Þá greiði skipstjórinn alls 730 þúsund krónur í málskostnað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×