Þýskur sigur í stórleiknum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ástríðan í þeim þýsku í kvöld.
Ástríðan í þeim þýsku í kvöld. Sebastian Widmann/Getty

Þýskaland hafði betur gegn Portúgal, 4-2, í stórleik dagsins á Evrópumótinu í fótbolta. Portúgal komst yfir í leiknum en þeir þýsku skoruðu svo fjögur mörk áður en Portúgal minnkaði muninn.

Cristiano Ronaldo kom Portúgal yfir á fimmtándu mínútu eftir frábæra skyndisókn. Hinn 36 ára gamli Ronaldo hóf sóknina og skoraði skömmu síðar eftir stoðsendingu Diego Jota.

Adam var þó ekki lengi í paradís. Rúben Dias varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 35. mínútu eftir fyrirgjöf Robin Gossens og skömmu síðar gerðu Portúgalar annað sjálfsmark.

Sex mínútum fyrir hálfleik stýrði Raphael Guerreiro boltanum í sitt eigið net. Nú var það Joshua Kimmich sem átti fyrirgjöfina og boltinn endaði í netinu. Hálfleikstölur 2-1.

Þeir þýsku voru ansi öflugir og Kai Havertz bætti við þriðja markinu í upphafi síðari hálfleiks. Eftir flotta sókn gaf Robin Gossens boltann fyrir markið og þar var Kai Havertz mættur og skilaði boltanum í netið.

Þýskaland bætti við fjórða markinu eftir klukkutíma leik. Joshua Kimmich gaf frábæra fyrirgjöf beint á kollinn á Robin Gosens sem stýrði boltanum í netið.

Ronaldo var ekki hættur. Hann lagði upp annað mark Portúgala á 67. mínútu fyrir Diego Jota og skömmu síðar þrumaði Renao Sanchez í slá af löngu færi.

Fleiri urðu mörkin ekki og þeir þýsku eru því komnir með þrjú stig, líkt og Portúgalar. Frakkar eru með fjögur stig og Ungverjar eitt.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.