Fótbolti

Í­huga að færa undan­úr­slitin sem og úr­slita­leikinn sjálfan til Ung­verja­lands

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úrslitaleikur EM á að fara fram á Wembley en UEFA íhugar nú að færa leikinn sem og undanúrslitaleikina til Ungverjalands.
Úrslitaleikur EM á að fara fram á Wembley en UEFA íhugar nú að færa leikinn sem og undanúrslitaleikina til Ungverjalands. EPA-EFE/ANDY RAIN

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, íhugar nú þann möguleika á að færa báða undanúrslitaleiki EM sem og úrslitaleik keppninnar frá Englandi til Ungverjalands haldist sóttvarnarreglur í Englandi óbreyttar.

Eins og staðan er í dag eiga báðir undanúrslitaleikir keppninnar og úrslitaleikurinn sjálfur að fara fram á Wembley-leikvanginum í Lundúnum. Undanúrslitin fara fram 6. og 7. júlí og mótinu lýkur svo þann 11. júlí.

Áætlað var að rýmka sóttvarnarreglur í Bretlandi öllu þann 21. júní. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur nú tekið þá ákvörðun að fresta þeirri ákvörðun um fjórar vikur vegna stöðu kórónuveirunnar í landinu.

Það þýðir að ferðamenn sem koma til Englands - og Bretlandseyja - þurfa að fara í tíu daga sóttkví eins og staðan er í dag.

UEFA reynir nú að ná samkomulag við Boris og heilbrigðisyfirvöld um að stuðningsfólk þeirra liða sem komast í undanúrslit og úrslit fái undanþágu frá téðum reglum. 

Stefnt er að takmarka dvöl þeirra í landinu, allir yrðu skimaðir við komuna til landsins og myndu aðeins fá leyfi til að ferðast á Wembley og til baka. Þá væri öllum gert að yfirgefa England strax að leik loknum.

Samkvæmt heimildum The Times skoðar UEFA nú að færa leikina á Puskás-völlinn í Búdapest í Ungverjalandi fari svo að undanþágur fáist ekki fyrir stuðningsfólk.

Fari svo að leikirnir verði spilaðir í Ungverjalandi er ljóst að mun fleiri gætu mætt á þá heldur en ef leikirnir færu fram á Wembley. Puskás-völlurinn tók á móti 60 þúsund manns er Ungverjaland og Portúgal mættust í riðlakeppninni en engar samkomutakmarkanir eru í Ungverjalandi á meðan aðeins 22.500 manns mega mæta á Wembley.


EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×