Innlent

Ferðamennirnir reyndust með indverska afbrigðið

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Fólkið greindist með veiruna í skimun fyrir brottför í byrjun vikunnar.
Fólkið greindist með veiruna í skimun fyrir brottför í byrjun vikunnar. Vísir/vilhelm

Ferðamennirnir tveir sem greindust með kórónuveiruna utan sóttkvíar fyrr í vikunni reyndust með Delta-afbrigðið svokallaða, sem rakið er til Indlands, samkvæmt niðurstöðum raðgreiningar. Talið er að fólkið hafi smitast rétt áður en það kom til landsins og þá þykir ólíklegt að það hafi smitað út frá sér.

Ferðamennirnir komu til landsins frá Mið-Austurlöndum, voru fullbólusettir og greindust neikvæðir í sýnatöku við komuna hingað. Þeir reyndust svo jákvæðir fyrir veirunni við skimun fyrir brottför á þriðjudag. Fram kom í tilkynningu að vel hefði gengið að rekja ferðir ferðamannanna og enginn hafi farið í sóttkví vegna þeirra. 

Delta-afbrigðið, sem virðist smitast greiðar en önnur afbrigði, hefur greinst nokkrum sinnum áður hér á landi.

„Við höfum greint þetta á landamærunum og einn af þeim var greindur reyndar í seinni skimun en það hefur ekki greinst þannig að það sé eitthvað sem við teljum að hafi smitast hérna innanlands,“ segir Guðrún Aspelund, yfirlæknir á sóttvarnasviði hjá embætti landlæknis.

Líklegast nýsmituð

Hún telur langlíklegast að ferðamennirnir hafi ekki smitast af afbrigðinu hérlendis.

„Þannig að það er líklegt að þau hafi verið nýsmituð, hafi smitast rétt fyrir ferðalagið eða á ferðalaginu því þetta afbrigði er ekki í gangi hérna innanlands, tímasetningin passar við það af því að þau greinast í skimun, þau greinast ekki vegna einkenna.“

Þá sé afar ólíklegt að fólkið hafi smitað út frá sér.

„Þau voru mjög út af fyrir sig, einnig varðandi matarmál, voru ekki að borða á veitingastöðum. Höfðu keypt sér mat höfðu farið í búðir en voru mjög sjálfum sér nóg og varðandi gistingu og annað einnig. Þannig að það fór enginn í sóttkví vegna þessa fólks,“ segir Guðrún.

„Við erum ekki með áhyggjur en erum auðvitað meðvituð um þetta og vakandi fyrir því og fylgjumst grannt með þessu því auðvitað viljum við ekki fá útbreiðslu á neinni veiru, og ekki þessu afbrigði, hérna innanlands.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×