Erlent

Íranir ganga að kjör­borðinu

Atli Ísleifsson skrifar
Ebrahim Raisi greiddi atkvæði í kosningunum í höfuðborginni Teheran snemma í morgun, en hann þykir langlíklegastur til að verða næsti forseti landsins.
Ebrahim Raisi greiddi atkvæði í kosningunum í höfuðborginni Teheran snemma í morgun, en hann þykir langlíklegastur til að verða næsti forseti landsins. AP

Forsetakosningar fara fram í Íran í dag þar sem allir þeir fjórir sem til greina koma sem arftaki Hassan Rouhani eru taldir vera harðlínumenn.

Fastlega er búist við að kjörsókn verði mjög lítil, en skoðanakannanir sýna að líklegast sé að sjíaklerkurinn Ebrahim Raisi, sem hefur verið yfirmaður dómskerfis landsins frá 2019, sé líklegastur til að bera sigur úr býtum.

Sá frambjóðandi sem talinn er líklegastur til að veita Raisi einhverja keppni um forsetaembættið er seðlabankastjórinn fyrrverandi, Abdolnasser Hemmati.

Stjórnarandstæðingar hafa margir kallað eftir því að kosningarnar verði sniðgengnar þar sem komið hafi verið í veg fyrir framboð mikils fjölda frambjóðanda sem hafi leitt til þess að enginn frambjóðandi sé líklegur til að veita Raisi raunverulega samkeppni.

Ali Khamenei, æðstiklerkur Írans, mætti á kjörstað í höfuðborginni Teheran til að greiða atkvæði snemma í morgun og hvatti hann landsmenn sína til að gera slíkt hið sama.

BBC segir frá því að í landinu sé viðtæk og megn óánægja með þær efnahagsþrengingar sem landsmenn hafa þurft að þola eftir að Bandaríkjamenn sögðu skilið við kjarnorkusamning vesturveldanna við Írani fyrir þremur árum og fóru að beita landinu viðskiptaþvinganir á ný.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×