Bjargráður er tæki sem grípur inn í starfsemi hjartans með rafstuði ef hjartsláttur fer úr skorðum.
Eriksen hefur dvalið á spítalanum Rigshospitalet í Kaupmannahöfn síðan á laugardag og gengist undir fjölda hjartarannsókna. Það var mat lækna á spítalanum að Eriksen þyrfti að fá græddan í sig bjargráð.
Endurlífga þurfti Eriksen eftir að hann hneig niður á vellinum síðasta laugardag. Einn læknanna sem sá um að endurlífgunina segir að Eriksen hafi komist aftur til meðvitundar eftir um hálfa mínútu og gat þá talað við læknana.
„Andskotinn hafi það, ég er ekki nema 29 ára gamall“
„Það var áhrifamikið augnablik því almennt eru líkurnar á vel heppnaðri endurlífgun ekki svo miklar,“ sagði læknirinn Jens Kleinfeld.
Hann segist hafa spurt Eriksen hvort hann væri „kominn til baka til okkar“ þegar hann opnaði augun og Eriksen hafi þá svarað: „Já, ég her hérna með ykkur“ og síðan sagt: „Andskotinn hafi það, ég er ekki nema 29 ára gamall“.
„Þá vissi ég að hann hafði ekki orðið fyrir neinum heilaskemmdum og að það væri allt í lagi með hann,“ segir læknirinn.
Næsti leikur Dana á Evrópumótinu er við Belga og fer fram klukkan 16 í dag. Danir töpuðu leiknum við Finna en stjórnendur mótsins hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir að hafa ekki frestað leiknum eftir atvikið lengur en gert var. Hann var kláraður um laugardagskvöldið eftir að ljóst var orðið að í lagi væri með Eriksen.