Fótbolti

Maguire segist klár í slaginn fyrir leikinn gegn Skot­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Harry Maguire meiddist í leik gegn Aston Villa í maí.
Harry Maguire meiddist í leik gegn Aston Villa í maí. vísir/Getty

Harry Maguire, miðvörður enska landsliðsins, segist klár í slaginn fyrir leikinn gegn Skotlandi. Stóra spurningin er hvort Gareth Southgate hrófli í varnarlínunni sem hélt hreinu gegn Króötum.

England og Skotland mætast í annarri umferð riðlakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu klukkan 19.00 annað kvöld. England vann frækinn sigur á Króatíu í fyrstu umferð og tryggir sér sæti í 16-liða úrslitum með sigri.

Harry Maguire, einn af máttarstólpum enska liðsins, hefur verið frá síðan í byrjun maímánaðar vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik með Manchester United gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni.

Tyrone Mings fékk tækifærið í hjarta varnar Englands gegn Króatíu og stóð sig með sóma. Nú segist Maguire sjálfur hins vegar vera klár í slaginn og meiðslin séu ekki lengur að angra hann.

Maguire hefur æft með enska liðinu síðan á fimmtudeginum í síðustu viku en var samt sem áður ekki í leikmannahópi Englands í 1-0 sigrinum á Króatíu. Hann hefur nú sett pressu á Southgate fyrir leikinn á morgun.

„Ég er klár í leikinn á morgun. Ég hef náð nokkrum æfingum og líður mjög vel. Ég hafði alltaf trú á að ég myndi ná að taka þátt í riðlakeppninni, ég vissi bara ekki hvenær. Ég var hræddur um að missa af EM þegar ég meiddist en ég er hérna núna og er klár í slaginn,“ sagði Maguire við The Athletic.

Nú er bara að bíða og sjá hvað Southgate gerir.


EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.