Erlent

Rykský skyggði á reginrisann Betelgás

Kjartan Kjartansson skrifar
Rykský skyggði á Betelgás á þessari mynd sem var tekin með SPHERE-mælitækinu á VLT-sjónauka ESO í mars árið 2020. Stjarnan náði fyrri birtu mánuði síðar.
Rykský skyggði á Betelgás á þessari mynd sem var tekin með SPHERE-mælitækinu á VLT-sjónauka ESO í mars árið 2020. Stjarnan náði fyrri birtu mánuði síðar. ESO/M. Montargès og fleiri

Stjörnufræðingar telja sig nú hafa leyst ráðgátuna um hvers vegna risastjarnan Betelgás dofnaði svo á næturhimninum að það var greinanlegt með berum augum. Rykský sem stjarnan sjálf spýtti frá sér skyggði á hana frá jörðinni séð.

Miklar vangaveltur voru um að Betelgás í stjörnumerkinu Óríon, sem er ein skærasta stjarnan á næturhimninum, væri við það að breytast í sprengistjörnu þegar hún dofnaði verulega síðla árs 2019 og snemma árs 2020. Menn hafa ekki getað séð sprengistjörnu í Vetrarbrautinni okkar með berum augum frá því á 17. öld og því voru margir spenntir.

Aðrar tilgátur um orsök þess að Betelgás dofnaði voru þó taldar sennilegra en að hún væri í dauðateygjunum. Nú hafa stjörnufræðingar staðfest eina þeirra, að rykský hafi hulið stjörnuna að hluta til, að því er segir í tilkynningu frá Evrópsku stjörnustöðinni á suðurhveli (ESO).

Þegar vísindamennirnir báru saman myndir sem teknar voru af Betelgás með VLT-sjónauka ESO í Atacama-eyðimörkinni í Síle í desember 2019 annars vegar og í janúar 2020 hins vegar sást að yfirborð stjörnunnar hafði dofnað umtalsvert, séstaklega suðurhluti hennar. Í apríl í fyrra hafði stjarnan náð fyrri birtu.

Á þessari myndaröð sést greinilega hvernig Betelgás dofnaði í desember 2019 og fram á vor árið eftir.ESO/M. Montargès og fleiri

Ryk sem verður efniviður í reikistjörnur og jafnvel líf

Betelgás er svonefndur rauður reginrisi, sólstjarna sem eru um tuttugufalt massameiri en sólin okkar. Hún er svo massamikil að hún mun ljúka æviskeiði sínu sem sprengistjarna. Slíkar stjörnur eru taldar afar breytilegar að eðlisfari og yfirborð þeirra getur bjagast þegar tröllvaxnir gasbólstrar þenjast út og skreppa saman eins og í bullsjóðandi súpu innan í henni.

Talið er að Betelgás hafi þeytt frá sér stórri gasbólu út í geiminn skömmu áður en hún byrjaði að dofna frá jörðu séð. Þegar hluti yfirborðs stjörnunnar kólnaði fljótlega eftir á þéttist gasið í ryk.

„Við urðum vitni að myndun geimryks,“ segir Miguel Montarges, stjörnufræðingur við Stjörnuathuganastöðina í París, sem er aðalhöfundur greinar um rannsóknina sem birtist í vísindaritinu Nature í dag.

Rannsóknin leiðir í ljós að ryk af þessu tagi getur myndast hratt og mjög nálægt yfirborði stjörnu. 

„Seinna meir verður rykið sem kaldar þróaðar stjörnur kasta frá sér, eins og þeytingunni sem við urðum vitni að, að byggingareiningum reikistjarna og jafnvel lífs,“ er haft eftir Emily Cannon frá Kaþólska háskólanum í Leuven í Belgíu sem tók þátt í rannsókninni.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×