Wa­les í góðum málum á meðan mögu­leikar Tyrkja eru úr sögunni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aaron Ramsey fagnar því sem reyndist sigurmark leiksins.
Aaron Ramsey fagnar því sem reyndist sigurmark leiksins. EPA-EFE/Darko Vojinovic

Wales vann frábæran 2-0 sigur á Tyrkjum í Bakú, Aserbaísjan, í A-riðli Evrópumótsins í knattspyrnu. Tyrkir þurftu á sigri að halda í dag en eftir leik dagsins er liðið úr leik á meðan Wales er svo gott sem komið áfram í 16-liða úrslit keppninnar.

Fyrri hálfleikur var fín skemmtun þó lengi vel stemmdi í að hann yrði markalaus. Walesverjar voru sprækari ef eitthvað er og þá sérstaklega Aaron Ramsey. Hann fékk fín færi en lét Ugurcan Çakir, markvörð Tyrklands, verja frá sér sem og hann setti boltann yfir úr frábæru færi.

Wales voru alltaf líklegri aðilinn og á markamínútunni frægu – 43. mínútu leiksins – fékk Ramsey frábæra sendingu frá Gareth Bale sem lyfti boltanum snyrtilega inn fyrir vörn Tyrklands. 

Ramsey tók boltann á bringuna áður en hann sendi boltann í netið og kom Wales í 1-0. Þannig var staðan er flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Síðari hálfleikur var einnig nokkuð opinn þó hvorugt lið hafi skapað sér eitthvað sem kalla mætti dauðafæri. Það er þangað til Wales fékk vítaspyrnu þegar rúm klukkustund var liðin.

Brotið var á Bale á vítateigslínunni og þar sem hún er hluti af teignum var vítaspyrna dæmd. Bale fór sjálfur á punktinn, tók áhugavert upphlaup og þrumaði boltanum yfir markið. Hreint út sagt skelfileg vítaspyrna.

Það var mikill hiti undir lok leiks.Naomi Baker/Getty Images

Staðan því enn 1-0 og Tyrkir héldu í vonina um að ná allavega inn jöfnunarmarki. Allt kom þó fyrir ekki og undir lok leiks tvöfaldaði Connor Roberts forystu Wales eftir frábæran sprett Bale.

Wales tók þá í annað skiptið á stuttum tíma stutt horn þar sem þeir virtust ætla að tefja. Þess í stað óð Bale inn á teig þar sem hann fann Roberts sem þurfti ekki að gera annað en að renna boltanum í netið og gulltryggja ótrúlegan 2-0 sigur Wales á Ólympíuvellinum í Bakú.

Það þýðir að Bale og félagar eru með fjögur stig og virðast vera á leiðinni í 16-liða úrslit mótsins á meðan Tyrkland er einfaldlega úr leik þó enn sé einn leikur eftir í riðlinum.


EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.