Erlent

Vonar að Biden verði ekki jafn hvat­vís og Trump

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Vladímír Pútín er forseti Rússlands.
Vladímír Pútín er forseti Rússlands. Mikhail Svetlov/Getty

Vladímír Pútín Rússlandsforseti segist vona að kollegi hans, Joe Biden Bandaríkjaforseti, verði ekki jafn hvatvís og forveri þess síðarnefnda í starfi, Donald Trump.

Í einkaviðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina NBC sagði Pútín að „róttækur munur“ væri á mönnunum tveimur og benti á að Biden hefði varið mun stærri hluta ævi sinnar í stjórnmálastarf en Trump, sem hann kallaði „litríkan einstakling.“

„Jafnvel núna þá er ég á þeirri skoðun að herra Trump sé ótrúlegur og hæfileikaríkur einstaklingur. Annars hefði hann ekki orðið forseti Bandaríkjanna,“ sagði Pútín.

„Hann er litríkur. Fólki kann að líka vel við hann eða ekki. En hann er ekki innan úr bandaríska kerfinu. Hann hefur ekki verið hluti af stóru stjórnmálunum í Bandaríkjunum áður, sumum finnst það gott en öðrum ekki. En það er staðreynd.“

Hann sagðist þá telja að hann gæti unnið með Biden, sem tók við forsetaembættinu í janúar á þessu ári eftir að hafa borið sigurorð af Trump í forsetakosningunum í nóvember á síðasta ári.

Pútin telur að Trump (t.v.) og Biden séu einkar ólíkir persónuleikar. Hér sjást þeir í kappræðum í aðdraganda forsetakosninganna á síðasta ári, þar sem Biden hafði að endingu betur.Morry Gash-Pool/Getty

„Hann er allt öðruvísi manneskja og ég vona að það leiði af sér kosti, það eru einhverjir ókostir, en ég vona að það verði komi engar hvatvísar ákvarðanir frá sitjandi Bandaríkjaforseta,“ sagði Pútín í viðtalinu.

Pútín og Biden munu funda í Genf í næstu viku og verður það fyrsti fundur forsetanna tveggja frá stjórnarskiptunum í Bandaríkjunum í janúar. Pútín hefur verið forseti Rússlands frá árinu 1999, ef frá er talinn sá tími sem hann varði í embætti forsætisráðherra landsins, frá 2008 til 2012.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×