Innlent

Svan­dís sendi efa­semdar­mönnum sínum pillu

Birgir Olgeirsson skrifar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Vísir/Vilhelm

Heilbrigðisráðherra segir að 25. júní verði búið að bjóða öllum Íslendingum, 16 ára og eldri, að koma í bólusetningu. 

Í dag hafa nærri 200 þúsund manns fengið minnst einn skammt af bóluefni og af þeim eru rúmlega 100 þúsund fullbólusettir. Íslendingar 16 ára og eldri eru 295.298 talsins en heilbrigðisráðherra ætlar að vera búin að bjóða þeim öllum í bólusetningu fyrir 25. júní.

„Ég minnist þess að hafa talað um þetta í fjölmiðlum um síðustu áramót, í desember og janúar, að þorri þjóðarinnar hefði fengið bólusetningu um mitt ár. Það þótti glannalegt þá en við verðum búin að bjóða öllum Íslendingum og öllum þeim sem búsettir eru hér bólusetningar 25. júní,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Var þetta aldrei óvissa í þínum huga?

„Þetta er það sem ég sagði þá og þetta er að koma á daginn,“ svarar Svandís. 

Svíar hafa lánað Íslendingum 24 þúsund skammta af bóluefni Janssen og hefur sænska ríkisstjórnin einnig tilkynnt að til standi að lána Kýpverjum 36 þúsund skammta. Skammtarnir eru að mestu leyti komnir til landsins og er búið að nota tíu þúsnd af þeim. Í gær myndaðist rúmlega kílómetra löng röð við Laugardalshöll þar sem bólusett var með efni Janssen.

Stefnt er að því að hefja bólusetningar barna, 12 - 15 ára, með undirliggjandi sjúkdóma um miðjan mánuðinn.

„Nú er bara markaðsleyfi fyrir Pfizer fyrir 12 til 15 ára. Við gerum ekki ráð fyrir að fara í almenna bólusetningu fyrir þennan hóp, en þó að bjóða langveikum börnum strax í júní á þessum aldri í bólusetningu. Þannig að það mun verða hafin bólusetning á þeim hópi í júní,“ segir Svandís. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×